143. löggjafarþing — 43. fundur,  19. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[18:38]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Vegferð þessa bandorms hefur verið nokkuð skrykkjótt, hann hefur enn sem komið er ekki orðið félegri með breytingum sem hafa bæst inn í hann við 2. umr. með nýjum lagaköflum eða köflum úr nýjum lagasöfnum, þannig að þetta er þó nokkur lesning. Samtals er verið að breyta yfir 20 lögum af mjög óskyldum toga. Svona vill þetta oft verða þegar gera þarf ýmsar ráðstafanir af þessu tagi.

Þær breytingar sem nú eru undir og eftir umfjöllun málsins milli 2. og 3. umr. í efnahags- og viðskiptanefnd kemur þar fyrst og fremst við sögu að gerðar eru þær breytingar á rekstri umboðsmanns skuldara sem þarf til að það embætti geti mætt kostnaði vegna lagasetningar um að aðstoða fólk sem verður að óska gjaldþrotaskipta. Um það mál er góð samstaða og að sjálfsögðu styðjum við að þær breytingar gangi inn í frumvarpið og lögin, sem eru í 1. og 2. tölulið breytingartillagna á sérstöku þingskjali sem meiri hluti nefndarinnar flytur.

Í öðru lagi er lagt til í 3. tölulið að IX. kafli lagafrumvarpsins, 17. gr., falli brott. Það er mikið fagnaðarefni, þau sinnaskipti sem orðið hafa frá 2. umr. þegar þetta var einmitt lagt til í breytingartillögum sem sá sem hér stendur flutti en því var því miður hafnað þá. Nú hefur orðið um þetta samkomulag og ég vil fara um það nokkrum orðum. Það er mér sérstakt ánægjuefni. Ég tel að þar hafi verið afstýrt í raun og veru slysi, þau skilaboð sem við værum að senda með því að fara að skerða sérstaklega rammann utan um stuðning við nýsköpunar- og sprotafyrirtæki og tiltekna þátttöku hins opinbera í rannsóknar- og þróunarkostnaði þeirra sem fólginn er í fyrirkomulagi sem tekið var upp 2010, reyndar löngu seinna á Íslandi en í flestum nálægum löndum, að stuðlað sé að og hlúð að slíkri starfsemi með slíku hvetjandi fyrirkomulagi.

Upphaflega kom frumvarpið fram með tillögum um að lækka endurgreiðsluhlutfall kostnaðarins úr 20% í 15%. Síðan var í 2. umr. lögð til sú breyting að í stað þess yrði haldi óbreyttri prósentu en fjárhæðarmörkin færð talsvert niður. Það hefði að vísu komið skár út fyrir allra minnstu fyrirtækin sem eru að stíga sín fyrstu skref en verið á kostnað hinna sem væru kannski komin aðeins á legg en væru eftir sem áður með mikið rannsóknar- og þróunarstarf, fyrirtæki sem eru oft einmitt í viðkvæmri stöðu gagnvart því að þar eru menn að vega og meta hvar eigi að velja starfseminni framtíðarbúsetu.

Ég hef þvert á móti talið að ef það væri eitthvað sem við þyrftum að gera í þessu kerfi væri það að hækka þessi fjárhæðarmörk og láta stuðninginn elta fyrirtækin aðeins lengra á þroskabrautinni og senda þeim þannig skilaboð að við viljum hafa þau á Íslandi áfram.

Hafa ber í huga, ef ég veit rétt, að þessi fjárhæðarmörk eru óbreytt frá 2010 í krónum talið. Ég giska á, frú forseti, að sú sé staðan. Nú man ég þetta ekki nákvæmlega hér „på stående fod“ eins og danskurinn segir, fyrirgefiði, en ég held að það sé þannig. Þá hafa þau auðvitað nú þegar rýrnað nokkuð og mundu halda áfram að rýrna, ég tala nú ekki um ef þau væru lækkuð. Þau væru þá að verða að raungildi umtalsvert lægri en upp var lagt með. Það eru röng skilaboð. Það er þróun í öfuga átt. Ég mæli þvert á móti með því að það verði skoðað. Kannski getur hv. þingnefnd tekið það fyrir á vormissiri að fara í svolitla útreikninga og rannsóknir á því hvort það sé ekki bara einhver besta fjárfesting sem völ er á að rýmka frekar þessar reglur en hitt, auka umfang starfseminnar, fá meiri skatta af fólki sem ráðið er ungum vísindamönnum o.s.frv., sem ráðið er inn í nýsköpunarverkefnin og þetta sé vinningur fyrir báða aðila. Það var orðin niðurstaða mín strax á árunum 2011–2012. Á vettvangi sprotafyrirtækjanna lýsti ég því sjónarmiði að eitt það besta sem Ísland gæti gert í þessum efnum væri, um leið og við teldum okkur ráða við það, að rýmka svolítið þessi fjárhæðarmörk og leyfa stuðningnum að elta fyrirtækin aðeins lengra upp eftir þroskabrautinni.

Við höfum fengið sannfærandi gögn úr þeirri átt frá þeim sem vel þekkja til í málaflokknum sem sýna það að ríkið fær þennan stuðning til baka, margfaldan, tugfaldan, á býsna skömmum tíma. Jafnvel er það þannig að í mörgum tilvikum leggur ríkið aldrei neitt út sem það fær ekki samtímis til baka eða er þegar búið að fá til baka í auknum launasköttum o.s.frv. Ég fagna þar af leiðandi sérstaklega brottfalli 17. gr. frumvarpsins.

Varðandi Ríkisútvarpið vil ég taka undir það sem hv. þm. Árni Páll Árnason sagði, þetta er mikil fjallabakslending sem hér er lögð til. Ég skil viljann til þess að reyna að bjarga því sem bjargað verður hjá Ríkisútvarpinu og láta það njóta góðs af því næstu tvö árin að það megi halda óbreyttu umfangi á auglýsingamarkaði og það þurfi ekki að stofna dótturfélög um samkeppnisreksturinn, en það eru á því verulegir veikleikar. Í fyrsta lagi gagnvart ESA. Í öðru lagi hefur það verið baráttumál annarra fjölmiðla í landinu að því yrði sett einhver mörk hvað Ríkisútvarpið væri fyrirferðarmikið í samkeppni við þá um auglýsingar.

Hver er þá niðurstaðan núna, frú forseti, af þeim ömurlega leiðangri sem varð til með ákvörðun meiri hlutans um að hjóla enn frekar í Ríkisútvarpið til þess að færa peninga upp í háskólann? Jú, hún er auðvitað sú að menn búa til upplausnarástand í annarri stofnun á móti, þ.e. Ríkisútvarpinu. Þegar það svo blasir við og menn horfast í augu við afleiðingarnar og fram undan væru frekari uppsagnir hjá útvarpinu þar sem yfir 20 manns í viðbót mundu missa vinnuna á næstu vikum, fara menn í svona vandræðareddingar. Eitthvað hjálpar þetta væntanlega Ríkisútvarpinu svo lengi sem við komumst upp með það gagnvart ESA, en það er þó alveg ljóst að því verður mjög þröngur stakkur sniðinn eftir sem áður.

Framtíðin er ekki björt fyrir Ríkisútvarpið ef núverandi flokkar verða hér enn við völd og ætla að standa við þá stefnu sína að lækka útvarpsgjaldið umtalsvert áður en Ríkisútvarpið fær að njóta þess að fullu. Það er sú framtíð sem núna hefur verið teiknuð upp fyrir þessa stofnun, hún er því ekki sérstaklega glæsileg.

Þá kem ég að öðru sem er á hinn bóginn ákaflega ánægjulegt, þ.e. að í 7. tölulið breytingartillagnanna — ég skauta hér yfir starfsendurhæfingarsjóði, hef engu við það að bæta sem hv. þm. Árni Páll Árnason sagði um það — að XXI. kafli, 46. og 47. gr. falli brott. Þar er um að ræða lagastoðina sem var skotið inn í frumvarpið við 2. umr. um gjaldtöku af sjúklingum annaðhvort við legu eða innritun á sjúkrahús. Það er sömuleiðis afrakstur af samkomulagi forustufólks okkar hér um þinglokin. Ég fagna þessu auðvitað mjög. Þetta er mikilvægur hugmyndafræðilegur sigur, tel ég, að koma þessu máli út. Einhvers staðar verða einhverjar víglínur að vera áður en menn fara með gjaldtökuna enn dýpra og enn þá lengra inn í heilbrigðiskerfið og skrúfa hana svo upp eins og greinilega er vilji margra að gera.

Sjúklingar á Ísland borga nú þegar tiltölulega hátt hlutfall kostnaðar, heildarkostnaðar, við heilbrigðismál. Maður hefði frekar viljað sjá þróunina vera í gagnstæða átt heldur en það sem hér stóð til að gera. Það er ástæða til að fagna þessu sérstaklega.

Þá vil ég koma að breytingartillögu sem ég flyt á sérstöku þingskjali, frú forseti, á þskj. 444. Hún lýtur að því að gera þetta frumvarp enn betra með því að fella enn eina greinina og enn einn kaflann úr því. Þá færi verulega að muna um ef þriðji vondi kaflinn næðist út úr málinu hérna bara á örfáum klukkutímum. Það er sum sé XII. kaflinn, 22. gr. frumvarpsins, um skólagjöldin. Fyrir því færum við einfaldlega þau rök að nú er orðið ljóst, með afgreiðslu meiri hlutans á sínu fjárlagafrumvarpi, að það sem til stendur er að hækka skólagjöld, innritunargjöld í opinbera háskóla réttara sagt, mjög umtalsvert, úr 60 í 75 þús. kr. sem er umframhækkun verðlags og í tilviki bókhaldsgagna frá Háskóla Íslands komið upp fyrir raunkostnað háskólans af innritun sem við höfum gögn um hver var á árinu 2012. Þannig að það má auðvitað verulega vefengja að hin mikla hækkun eigi sér lagastoð, sé ekki ólögmæt í lögunum sem gilda um það að innritunargjöld séu innritunargjöld, eigi að byggja á raunkostnaði háskólanna. Ég held að það hljóti að þurfa að túlkast þannig, þó að menn séu að horfa til einhvers meðaltals og í minni háskólunum sé innritunarkostnaðurinn eitthvað hærri á nemanda sem skiljanlegt er, kannski um 80 þús. kr. á Akureyri, jafnvel enn hærri í enn minni skólum, en hann er sannanlega hjá Háskóla Íslands ekki nema um 66 þús. kr. á árinu 2012. Þar með lít ég svo á að til þess að gjaldtakan verði ekki ólögmæt megi ekki gera meira en færa þá fjárhæð upp til verðlags. En gengið er lengra í þessari hækkun og meðal annars reiknuð 4% hækkun á þetta á árinu 2014 þó að verðlagsuppfærsla fjárlagafrumvarpsins eins og það kom fram hafi ekki átt að vera nema 3%, og núna sé talað um 3,6%. Ég sé ekki betur en stúdentar við Háskóla Íslands, námsmenn við Háskóla Íslands, hafi bara ágætismálsástæður til að láta reyna á það hvort þessi gjaldtaka standist.

Eigum við nokkuð að vera að standa í því úr því meiri hlutinn er að breyta þessu í nefskatt á stúdenta? Með því að fara inn með þessa miklu hækkun og þann skatt og skerða um leið í beinu samhengi framlögin til háskólanna þannig að þeir eru sáralítið betur settir, halda eftir hverfandi hluta fjárhæðarinnar í bættri stöðu, þá er þetta de facto orðinn nefskattur á stúdenta og það er algerlega óásættanlegt. Ekki er hægt að bjóða upp á það. Það má þó hækkunin eiga frá fyrra ári að hún gekk öll til háskólanna og bætti afkomu þeirra, enda studdu stúdentar eða létu sér þá hækkun lynda á sínum tíma.

Þess vegna leggjum við til að XII. kafli, 22. gr. falli brott og háskólunum verði bætt tekjutapið með öðrum hætti. Það tel ég að væri manndómsbragur að hér í lokaumfjöllun um þessi mál. Annars verða þeir sem ætla sér að láta sig hafa að samþykkja þetta með nokkurt óbragð í munni, skyldi ég ætla, því að ekki er skemmtilegur svipur á þessu og er þá vægt til orða tekið, virðulegur forseti.

Tímans vegna læt ég nægja að gera athugasemdir við þetta og ætla ekki að fara inn í önnur efnisatriði frumvarpsins sem væri auðvitað fullkomlega gilt að ræða hér nú við 3. umr. eins og 2. umr. Í nefndaráliti minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar eru sjónarmið okkar í þeim efnum rakin, svo sem eins og með verðlagsuppfærsluna þar sem ríkisvaldið leggur ekkert af mörkum gagnvart því að greiða götu kjarasamninga eins og mörg sveitarfélög í landinu hafa gert með býsna myndarlegum hætti, fallið frá gjaldskrárhækkunum. Ég er enginn sérstakur talsmaður þess að menn láti safnast upp mikinn slaka í krónutölugjöldum, bensíngjöldum eða áfengis- og tóbaksgjaldi eða hvað það nú væri, en auðvitað getur verið millivegur í því.

Ég undrast eiginlega satt besta að segja að ríkisstjórnin og meiri hluti hennar skyldi ekki láta sér detta í hug þá einföldu leið að láta verðlagshækkun sem næmi verðbólgumarkmiði Seðlabankans nægja, upp á 2,5%, væri þá að gefa eftir hálft til rúmlega eitt prósent í hækkun á þessum gjöldum, sendi þau skilaboð að menn vildu taka þátt í því að reyna að ná verðbólguvæntingunum niður á næsta ári og greiða götu kjarasamninga. Þeir kosta nokkur hundruð milljónir kr. eða kannski 500 en ekki mikið meira en það, og væntanlega hefði verið hægt að brúa það bil með einhverjum ráðum. Það var ekki gert. Við stöndum frammi fyrir því að kjarasamningagerðin er í uppnámi og ríkisstjórnin leggur ekki nokkurn skapaðan hlut af mörkum sérstaklega til þess, það tel ég ekki vera, alla vega ekki í þessum þætti málsins. Það er undrunarefni satt best að setja að menn skuli ekki vilja eiga eitthvað inni sem þeir geti vísað á eftir áramótin þegar menn vonandi fara að tala um kjaramálin á nýjan leik.