143. löggjafarþing — 43. fundur,  19. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[18:57]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek skýrt fram að ég er ekki að blanda mér í þetta til þess að eggja stúdentaráð eða stúdenta sérstaklega til dáða enda held ég að þeir séu alveg fullfærir um það og hafa sýnt það m.a. í snöfurlegri framgöngu sinni gagnvart menntamálaráðherra og lánasjóðnum að það fólk er alveg klárt á sinni vakt að gæta hagsmuna námsmanna rétt eins og það var á sínum tíma, satt best að segja, þegar sá sem hér talar var í stúdentaráði og við stóðum stundum í ýmsum slagsmálum af þessu tagi.

Ég er fyrst og fremst að draga þetta hér fram af því að mér finnst að þingmenn eigi að vita hvað þeir eru að gera, það eigi að liggja fyrir hvað er á ferðinni í málum af þessu tagi. Ég tel að þetta sé mjög tæpt. Það er á þessu sá ljóður. Sennilega hefði meiri hlutinn ekki þurft að sætta sig við minna en kannski 2 þús. kr. lækkun á þessu innritunargjaldi, ekki fara alveg svona langt í hækkuninni, þá hefði málið sloppið. Ég ímynda mér að það hefði verið nokkurn veginn fyrir vind ef gjaldið hefði ekki verið nema 73 þús. kr. eða eitthvað svoleiðis. Menn geta auðvitað sagt að þetta séu hreinir smámunir og þessar fjárhæðir skipti ekki miklu til eða frá, en rétt skal vera rétt. Lögin heimila að innheimt séu innritunargjöld í samræmi við raunkostnað — punktur. Ef farið er upp fyrir þau mörk er sú gjaldtaka í fyrsta lagi ólögleg og í öðru lagi er gjaldið orðið skattur því að þá er það ekki lengur innheimta á þessum kostnaði. Þessu tvennu má ekki blanda saman. Við glímum oft við þessi landamæri annars staðar. Stundum leikur grunur á að menn ýki heldur upp ýmsan kostnað sem er settur inn í þjónustugjöld o.s.frv., en það á ekki að gera. Þetta á að endurspegla raunkostnað því að allt sem ekki gerir það og er umfram það hvar sem það er í gjaldtöku af þessu tagi er undir fölsku flaggi, þá er það (Forseti hringir.) skattur en ekki þjónustugjöld eða kostnaðargjöld.