143. löggjafarþing — 43. fundur,  19. des. 2013.

flutningur verkefna frá innanríkisráðuneytinu til sýslumannsembætta.

161. mál
[20:17]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Við kölluðum þetta mál inn til nefndar milli umræðna vegna þess að okkur hafði borist ný umsögn frá Lögmannafélagi Íslands og við töldum rétt að fara að nýju yfir þau atriði sem bent var á í þeirri umsögn um breytingar í VI. kafla frumvarpsins, á lögum um lögmenn, og hvernig ætlunin er að halda utan um leyfisveitingar og sviptingar hjá þeirri stétt.

Nefndin tók málið fyrir og fjallaði um athugasemdirnar. Nefndin ræddi sérstaklega þau tilvik ef sýslumaður hafnar því að fella málflutningsréttindi úr gildi. Í nefndaráliti okkar áréttum við þá skoðun nefndarinnar sem birtist í fyrra nefndaráliti að rétt sé að ákvarðanir í þessum málaflokki séu teknar af sýslumanni og að það verði kæruheimild til ráðuneytisins.

Við fórum jafnframt yfir það með hvaða hætti framkvæmdin er í þessum málum annars staðar á Norðurlöndunum og komumst að því að hún er mjög mismunandi. Það er ekki samræmt hvernig haldið er utan um þetta á Norðurlöndunum og ýmsar stjórnsýslustofnanir sinna þessum verkum. Heldur nefndin sig því við þann rökstuðning sem birtist í nefndaráliti okkar við 2. umr. og vísar til hans.

Herra forseti. Við gerum hér eina breytingartillögu er varðar gildistöku laganna. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að lögin taki gildi 1. janúar 2014. Þar sem nú er skammt til áramóta telur nefndin rétt að fresta gildistöku til 1. febrúar 2014 svo að það gefist meiri tími til þess að undirbúa flutning þessara verkefna frá innanríkisráðuneytinu til sýslumannsembætta og annarra embætta og stofnana.

Þess vegna leggjum við til þá breytingartillögu að 1. málsliður 25. gr. orðist svo: Lög þessi öðlast gildi 1. febrúar 2014.

Að öðru leyti langar mig til að þakka fyrir sérstaklega gott samstarf í nefndinni og vonast til að það muni halda áfram á komandi ári.

Undir þetta nefndarálit skrifa sú sem hér stendur og hv. þingmenn Páll Valur Björnsson, Haraldur Einarsson, Elsa Lára Arnardóttir, Guðbjartur Hannesson, Helgi Hrafn Gunnarsson, Jóhanna María Sigmundsdóttir, Katrín Jakobsdóttir og Vilhjálmur Árnason.