143. löggjafarþing — 43. fundur,  19. des. 2013.

tollalög o.fl.

205. mál
[20:21]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég flyt hér framsögu fyrir hönd efnahags- og viðskiptanefndar, nefndarálit með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingar á tollalögum, nr. 88/2005, lögum um vörugjald, nr. 97/1987, lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, og lögum um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur, nr. 52/1989, með síðari breytingum, sektir, greiðslufrestur í tolli, sykurskattur og skilagjald vegna einnota drykkjarumbúða.

Nefndin ákvað að taka málið til frekari umfjöllunar eftir að því var vísað til 3. umr. Nefndin leggur til breytingartillögu við frumvarpið, að bætt verði við nýjum kafla og að í þeim kafla verði eitt ákvæði. Ákvæðið fjallar um heimildir til lækkunar á vörugjaldi af ökutækjum samkvæmt undanþáguflokki í 2. tölulið 2. mgr. 5. gr. laga nr. 29/1993. Undir þann flokk falla bifreiðar sem ætlaðar eru til útleigu hjá bílaleigum. Í ákvæðinu segir að lækkun á vörugjaldi samkvæmt framangreindum undanþáguflokki geti ekki numið hærri fjárhæð en 750 þús. kr. Fyrir liggur að útsöluverð bifreiða hefur hækkað nokkuð á þessu ári og afslátturinn því rýrnað að raungildi. Því eru talin standa rök til þess að hækka hámark afsláttarins úr 750 þús. kr. í 1 millj. kr.

Nefndin var einhuga um að bæta þessum kafla við og þessari breytingu og leggur til að frumvarpið verið samþykkt með breytingunni sem ég færði rök fyrir og ætla að lesa hana hér upp:

„Á eftir IV. kafla komi nýr kafli, V. kafli, Breyting á lögum um vörugjöld af ökutækjum, eldsneyti o.fl., nr. 29/1993, með einni nýrri grein, 8. gr., svohljóðandi:

Í stað fjárhæðarinnar „750.000 kr.“ í 3. mgr. 3. gr. laganna kemur: 1.000.000 kr.

Fyrirsögn frumvarpsins orðist svo: Frumvarp til laga um breytingu á tollalögum, nr. 88/2005, lögum um vörugjald, nr. 97/1987, lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, lögum um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur, nr. 52/1989, og lögum um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., nr. 29/1993, með síðari breytingum (sektir, greiðslufrestur í tolli, sykurskattur og skilagjald vegna einnota drykkjarumbúða, vörugjald af bílum til útleigu o.fl.).“

Þessi kafli kemur til viðbótar þeim fjórum köflum sem ég fór yfir í nefndaráliti í 2. umr. og sneru að stórum hluta til að einföldun á tollalögum og aukinni skilvirkni. Þessi viðbótarkafli er talinn falla undir slík rök. Það var sami einhugur í nefndinni og fyrr í vinnslu þessa máls.

Undir nefndarálitið rita hv. þingmenn Frosti Sigurjónsson, Pétur H. Blöndal, Willum Þór Þórsson, Líneik Anna Sævarsdóttir, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Brynjar Níelsson, Árni Páll Árnason, með fyrirvara, og Guðmundur Steingrímsson, sömuleiðis með fyrirvara.