143. löggjafarþing — 43. fundur,  19. des. 2013.

tollalög o.fl.

205. mál
[20:26]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég þakka talsmanni efnahags- og viðskiptanefndar fyrir sköruglega framsögu og allt var það rétt sem þar kom fram. Við skoðuðum þetta mál í ágætissamkomulagi. Ég hygg reyndar að enn á ný hafi orðið smámistök í þingskjali, mig minnir að ég hafi sagst ætla að standa að þessari afgreiðslu með fyrirvara, en það kemur ekki að stórri sök, ég geri þá munnlega grein fyrir honum. Hann snýr nú aðallega að því að við fengum ósk um að taka inn í málið nýja hluti mjög síðbúið sem ég geri ekki athugasemd við og get alveg stutt, en það er aldrei það æskilega að opna upp nýja kafla í 3. og síðustu umr. um mál af þessu tagi og hefði verið ágætt að hafa til frekari skoðunar.

Án þess að ég ætli að fara lengra með það geri ég ráð fyrir því að það sé sams konar fyrirvari sem félagar mínir aðrir hér í minni hlutanum, sem ekki eru viðstaddir, gera við afgreiðslu málsins.