143. löggjafarþing — 43. fundur,  19. des. 2013.

tekjuskattur.

204. mál
[21:02]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti frá meiri hlut hv. efnahags- og viðskiptanefndar sem er að finna á þskj. 417, um mál 204. Þetta er frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum.

Á fund nefndarinnar komu 14 gestir. Henni bárust níu umsagnir. Farið var í gegnum þær umsagnir og stungið upp á mörgum athyglisverðum breytingum. Þær eru taldar verulega til bóta. Þá var stefnumörkun varðandi endurbætur og einföldun skattkerfisins oftlega fagnað í þessum umsögnum.

Í fyrsta lagi fjalla ég um skattlagningu tekna af afleiðusamningum, en þar er bent á að orðalagið „tekjur af afleiðusamningum“ er ekki nægilega skýrt. Meiri hlutinn telur rétt að bregðast við þeim athugasemdum og leggur til að skýrt verði tekið fram í frumvarpsgreininni að allir aðilar sem hafa tekjur af afleiðusamningum hér á landi skuli greiða tekjuskatt af þeim tekjum. Með því telur meiri hlutinn skýrt orðið að ákvæðinu er ætlað að taka til tekna innlendra aðila af afleiðusamningum sem gerðir eru við innlenda eða erlenda aðila en einnig taki ákvæðið til tekna erlendra aðila af afleiðusamningum sem gerðir eru við innlenda aðila. Það taki hins vegar ekki til tekna erlendra aðila af afleiðusamningum sem erlendir aðilar gera sín á milli þó að undirliggjandi eign sé íslensk, t.d. hlutabréf íslenskra fyrirtækja.

Afleiður eru í eðli sínu mjög margbreytilegar og þurfa ekki að takmarka sig við breytingar á verði verðbréfa eða gengi gjaldmiðla, eins og margir virðast telja. Afleiður felast almennt í því að einn aðili tekur á sig að takmarka áhættu annars vegna ýmiss konar ófyrirséðrar þróunar, t.d. í verði á afurðum, kjöti, fiski og gengi kvikmyndar, svo að dæmi séu nefnd. Þannig er áhætta tekin af atvinnulífinu í einstakri grein og henni dreift og jafnað með öðrum greinum.

Sem dæmi má nefna að sá sem kaupir afleiðu getur tryggt sjómann fyrir því að hann fái ákveðið verð fyrir fiskinn eftir þrjá mánuði þegar hann hefur lokið þeim veiðum sem hann er að leggja í, eða að bóndi getur fengið ákveðið verð fyrir kjötið þegar hann setur kálfana á eða lömbin að hausti. Einnig getur verið afleiða að tryggja mönnum að verðbólga af verðtryggðum lánum fari aldrei upp fyrir 4%, það gæti verið afleiða.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að vaxtaskiptasamningar verði undanþegnir. Það kom fram á fundi nefndarinnar að vaxtaskiptasamningar séu ekkert síður áhættusamir en aðrir samningar sem lagðir eru til grundvallar afleiðum og ekki eðlilegt að undanskilja þá.

Þá var rætt nokkuð um söluhagnað af afleiðusamningum. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að afleiðusamningar ættu eingöngu við um söluhagnað sem nái til hlutabréfaafleiða. Þetta taldi meiri hlutinn vera allt of mikla einföldun og allt of mikla takmörkun á afleiðusamningum.

Að lokum bendir meiri hlutinn á að íslensk stjórnvöld undirbúa um þessar mundir innleiðingu á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins sem felur í sér ákvæði þess efnis að afleiðusamningar verði skráðir. Ég tel mjög mikilvægt að þeir séu skráðir. Það sem háir helst afleiðusamningum víða um heim, t.d. í olíu, er það að sama fatið er kannski selt í afleiðum 10.000 sinnum þó að ekki sé um að ræða nema eitt fat. Það gerir að verkum að verðið á afleiðunni fer að skipta meira máli en verðið á hráefninu.

Þá ræddi nefndin þær tillögur sem koma fram í frumvarpinu um millilandasamruna. Nokkuð var rætt um hvað væri raunveruleg atvinnustarfsemi og það er skilgreint í nefndarálitinu. Þá var einnig rætt um það að útreikningar sem koma inn í það þegar metinn er hagnaður af fyrirtæki sem sameinast öðru fyrirtæki í útlöndum, þeir útreikningar geta verið framkvæmdir af fjölda aðila, en þeir skulu vera staðfestir af endurskoðanda viðkomandi hlutafélags eða félags.

Nokkuð mikið var rætt um yfirfærslu taps íslensks félags við samruna og hvernig hægt væri að meta það tap sem er og alveg sérstaklega hagnaðinn. Fallist var á þær tillögur sem komu fram í frumvarpinu um það hvernig farið skyldi með hagnað fyrirtækja sem sameinast öðru fyrirtæki utan landsins.

Nokkuð var rætt um skjölunarskyldu vegna viðskipta við tengda aðila. Bent var á að sú viðmiðun sem miðað er við eða að skjölunarskyldan félli til þegar komnar væru ákveðnar tekjur á rekstrarárinu — það getur komið upp síðast á árinu og þá er allt í einu komin skjölunarskylda þegar menn gátu ekki og máttu ekki vita það. Þetta var leyst með því að í breytingartillögum er gert ráð fyrir því að skjölunarskyldan gildi frá og með næsta reikningsári þar sem hún fellur til.

Í sambandi við afnám 20/50-reglunnar, sem ekki hefur gefið ríkissjóði neitt miklar tekjur, var lagt til að skerpa á því hvað þýðir að vera tengdir aðilar og eins að skerpa á því hvernig reiknað endurgjald er reiknað. Mikil vinna liggur fyrir í því að skerpa á því að finna betri grundvöll fyrir reiknað endurgjald þannig að það hafi þau áhrif sem því er ætlað, þ.e. að meta þá vinnu sem eigandi félags leggur fram fyrir félagið.

Varðandi endurgreidd óheimil lán kom fram tillaga um að hafa sambærilega reglu með þá skattlagningu eins og er annars staðar í lögum, að það teldist ekki tekjur. Þarna komum við einmitt að þeim vanda að fjármagnstekjuskatturinn er ekki rökréttur og átti ekki að vera það, þess vegna var prósentan á sínum tíma miðuð við 10%, af því hann var ekki rökréttur, ekki er hægt að draga vaxtagjöld frá vaxtatekjum og ekki er hægt að draga kostnað frá leigu, ekki einu sinni skatta, og ekki er hægt að draga tap af hlutabréfum frá hagnaði af hlutabréfum. Einstaklingar geta verið með hagnað og tap á sama árinu og skattinum kemur tapið ekkert við heldur bara hagnaðurinn. Þess vegna var skatturinn á sínum tíma settur á 10% og það virkaði nokkuð vel, en þegar hann er kominn upp í 20% fer það að bíta hvað hann er órökréttur.

Síðan er sérstakur fjársýsluskattur. Gerðar voru athugasemdir við 15. gr. frumvarpsins. Var andstöðu lýst við rökstuðning sem kemur fram í sérstökum athugasemdum með frumvarpsgreininni þar sem efnislega segir að ekki sé hægt að taka tillit til samsköttunar og yfirfæranlegs taps við álagningu sérstaks fjársýsluskatts vegna sérstöðu hans. Kom sú skoðun fram að breytingin væri afar íþyngjandi og skatturinn hefði enga sérstöðu umfram almennan tekjuskatt sem lagður væri á sama skattstofn. Voru líkur taldar á að breytingin mundi leiða til þess að ekki yrði horft til raunverulegrar afkomu fyrirtækja sem skattinn greiða.

Gagnstæð sjónarmið komu þó fram fyrir nefndinni. Voru tengsl sérstaks fjársýsluskatts og almenns fjársýsluskatts talin mjög náin. Þannig var m.a. bent á að í athugasemdum frumvarps til laga um fjársýsluskatt kæmi fram að það væri liður í sérstökum tekjuöflunaraðgerðum fjárlagafrumvarpsins 2012. Miðað hefði verið við að skatthlutfall fjársýsluskatts yrði 10,5% en frumvarpið hafi tekið nokkrum breytingum í meðförum Alþingis. Niðurstaðan hafi orðið sú að lækka skatthlutfall fjársýsluskatts í 5,45% en lögfesta nýjan skatt samhliða, sérstakan fjársýsluskatt sem lagður yrði á hagnað umfram 1 milljarð kr. Var tekið fram að með þessari breytingu hefði verið komið til móts við athugasemdir hagsmunaaðila.

Að mati meiri hluta er tillaga 15. gr. eðlileg.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um á þskj. 418.

Undir nefndarálitið rita hv. þingmenn Frosti Sigurjónsson formaður, Pétur H. Blöndal framsögumaður, Willum Þór Þórsson, Guðmundur Steingrímsson, með fyrirvara, Líneik Anna Sævarsdóttir, Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Vilhjálmur Bjarnason.