143. löggjafarþing — 44. fundur,  20. des. 2013.

tekjuaðgerðir fjárlagafrumvarps 2014.

2. mál
[10:42]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Hér kemur til atkvæða endanlegt álagningarhlutfall svonefnds bankaskatts. Þá tölu fengum við fyrst að sjá síðdegis í gær. Með þessari hækkun sýnist mér að skatturinn hafi rétt liðlega nífaldast frá því sem hann var á síðasta ári. Það er nokkuð vasklega að verki verið og ekki fjarri því að það geti verið að minnsta kosti Íslandsmet ef ekki heimsmet.

Hér er þá að verða til tæplega 40 milljarða skattstofn fyrir ríkið, sennilega fjórði stærsti einstaki tekjupóstur ríkisins á eftir virðisaukaskatti, tekjuskatti og tryggingagjaldi. Af því má ráða að það er ekki lítið lagt undir í þessari tilraun til skattlagningar. Við verðum að vona hið besta og efnahags- og viðskiptanefnd hefur unnið vel að því að reyna að treysta forsendur þessarar tekjuöflunar eins vel og hægt er, að ég tel, en áfram er auðvitað óvissa um málið.

Við styðjum það. Við höfum þó haft lítinn tíma til að skoða það og það er ákveðin óvissa tengd þessari nýju og stórfelldu tekjuöflun.