143. löggjafarþing — 44. fundur,  20. des. 2013.

tekjuaðgerðir fjárlagafrumvarps 2014.

2. mál
[10:44]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Með þessum tölulið eru líkur á að umtalsverðar fjárhæðir komi inn í ríkissjóð. Eftir yfirferð efnahags- og viðskiptanefndar sjáum við ástæðu til að styðja þetta mál, en ég legg áherslu á að samt sem áður eru uppi lögfræðileg álitaefni og maður getur gert ráð fyrir að það verði látið reyna á þennan skatt fyrir dómstólum. Ég er þó frekar bjartsýnn á að hann sé lögmætur.

Svo er líka álitamál hversu lengi þessi skattstofn getur skilað okkur fé í ríkissjóð. Í greinargerð frumvarpsins sem við greiðum hérna atkvæði um er gert ráð fyrir að skattstofninn fjari út 2015. Það er í raun ekkert í umræðunni sem hefur breytt þeim forsendum. Mér finnst verulega ámælisvert að ætla sér að fjármagna fjögurra ára aðgerðir, 20 milljarða á ári, með skattstofni sem útlit er fyrir að skili okkur einungis tekjum í tvö ár. Við eigum ekki að spila þannig veðmál (Forseti hringir.) með ríkissjóð.