143. löggjafarþing — 44. fundur,  20. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[10:48]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Við leggjum til að þessi kafli, þessi grein, falli brott úr frumvarpinu. Hér er verið að stórhækka innritunargjöld í opinbera háskóla, en það er staðið þannig að því af hálfu stjórnarmeirihlutans að framlög til háskólanna eru skert um nokkurn veginn sömu upphæð á móti. Með því er í reynd verið að breyta þessum innritunargjöldum í hreinan nefskatt á námsmenn í ríkissjóð. Þannig kemur málið út fjárhagslega.

Auk þess er gengið mjög langt í hækkun skattsins miðað við raunkostnað háskólanna við innritun sem var á síðasta ári samkvæmt bókhaldsgögnum Háskóla Íslands 66 þús. kr. (Gripið fram í.) þannig að það er gengið lengra en að hækka þann raunkostnað sem nemur áætluðu verðlagi á árinu 2014. (Menntmrh.: Þetta er rangt.) Þar með tel ég að skatturinn sé orðinn — (Menntmrh.: Rangt með farið.) þar með tel ég að skatturinn sé orðinn ólöglegur, hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra. (Gripið fram í.) Skyldi nú ekki vera að stúdentaráð ætti eftir að leggja hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra aftur á klofbragði. (Menntmrh.: Þetta er rangt með farið.)