143. löggjafarþing — 44. fundur,  20. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[12:55]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður svarar ekki spurningunni minni, hún var mjög skýr. Hún sneri að því hvernig það væri ef við værum í þeirri stöðu að Hæstiréttur hefði ekki fellt dóm sinn um gengistryggðu lánin, við mundum þá nýta fjármuni úr bankakerfinu til þess að koma til móts við þann hóp, sem mér sýnist nú á öllu að flestir Íslendingar séu sammála um að hafi verið góð og sanngjörn leið, hún var ekki tekin af stjórnvöldum, hún var tekin af Hæstarétti Íslands. (Gripið fram í.)Hv. þingmaður minntist á þá sem eru á leigumarkaði, við reynum að koma til móts við þá með úttekt á séreignarsparnaði (Gripið fram í.)og fá því framgengt að þeir fái skattalækkun.

Ég mundi gjarnan vilja fá svar við þessari spurningu og kannski um leið þessu: Var rangt að setja neyðarlögin á sínum tíma?

Ég hef heyrt hv. þm. Guðmund Steingrímsson segja að það hafi verið jákvætt og nauðsynlegt að fara í neyðarlögin. En hvað gerðist með neyðarlögunum? Öllum þeim sem áttu pening í banka var bjargað. Þá erum við að tala um ríka fólkið. Af hverju minnist fólk ekki á það?

Ég held að sé mjög ósanngjarnt að halda því fram að sú leiðréttingarleið sem nú er farin, að leiðrétta forsendubrest, beinist eingöngu að þeim sem eiga mikla fjármuni, það er bara því miður ekki rétt, það er margítrekað og útskýrt. Ég vona að hv. þingmaður nái öllu því sem hv. þm. Guðmundur Steingrímsson hefur fram að færa, ég hefði nú gaman af því að fá að heyra hans hlið á málinu líka.

Ég var mjög ánægður að heyra það þegar Björt framtíð lýsti ánægju sinni yfir því að það væru einhverjar tillögur á leiðinni fyrir suma. Mig langar til að heyra hvort (Forseti hringir.) þau ætli ekki að halda áfram að skoða þetta með jákvæðum hug og reyna (Forseti hringir.) að gera sitt allra besta við að greiða leiðina fyrir málið í gegnum Alþingi.