143. löggjafarþing — 44. fundur,  20. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[12:58]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Brynhildur Pétursdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta eru margar spurningar og ég skal reyna að svara þeim.

Varðandi bankaskattinn þá greiddum við atkvæði með honum hérna. Að sjálfsögðu á ríkið að reyna að ná í þær tekjur sem það getur og það er um að gera að ná í þennan bankaskatt. En við bendum á að það eru trúlega ekki tekjur til framtíðar. Við erum því algjörlega fylgjandi því, en við verðum að sætta okkur við það, ég og hv. þingmaður, að við erum kannski ekki sammála í þessu máli. Það er bara allt í lagi. Ég þarf ekkert að vera sammála hv. þingmanni um þetta. Okkur greinir á og þá tökum við bara umræðuna um það í þinginu.

Það er ekki þannig að ekkert hafi verið gert, eins og oft hefur verið haldið fram. Búið var að fara í gengistryggðu lánin og umreikna þau, síðan kemur dómur Hæstaréttar sem kom sumum á óvart. Ef ég man rétt fór það nú þannig að það voru fjórir dómarar á móti þremur í Hæstarétti, hann hefði getað fallið á hvorn veginn sem var. Ekki hefur enn þá verið komið til móts við lánsveðshópinn en það er nokkuð sem við höfum talað fyrir að þurfi að skoða.

Ég endurtek að samkvæmt upplýsingum sem ég hef þá hafa í rauninni ótrúlega fáir sótt í 110%-leiðina hjá Íbúðalánasjóði. Maður veltir fyrir sér hvernig standi á því. (Gripið fram í: Vegna takmarkana sem Alþingi setti.) Þá er kannski kominn tími til núna að breyta því. Það getur verið eitt af úrræðunum. (Gripið fram í.)

Ég endurtek að við setjum 80 milljarða í úrræði sem virka ómarkviss eins og staðan er núna. En um leið og stjórnvöld eru búin að koma með ítarlega greiningu á því hverjir fá þetta fé, hverju aðgerðin skilar, hver efnahagslegu áhrifin verða, þá skulum við skoða þetta.

Hins vegar er furðulegt að vera hér á einum eftirmiðdegi að ræða þetta mál, þetta eru 20 milljarðar, þetta er ekkert smámál. En við tökum þá umræðu eftir jól.