143. löggjafarþing — 44. fundur,  20. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[13:23]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni fyrir málefnalega ræðu. Hann fór yfir ýmislegt sem þarf að ræða. Eitt finnst mér standa upp úr og það eru vonbrigði mín með að Vinstri grænir ætla ekki að standa að því að samþykkja 20 milljarða útgjöld sem koma til með að leiðrétta skuldir heimila landsins eða þeirra sem eru með verðtryggð lán. Hv. þingmaður fór örstutt yfir það áðan að þegar neyðarlögin voru sett á var þeim bjargað sem áttu pening í banka. Það var gert án allra skilyrða eða takmarkana. Það var ekki sett hámark eins og sett er í þessu máli okkar framsóknarmanna. Það hefur verið talað um að þetta snúi fyrst að fólki sem er með miklar tekjur en ég hafna því alfarið vegna þess að þetta nær til 85% þeirra sem keyptu eign undir 25 milljónum og það held ég að geti varla talist til hátekjufólks. Þetta er almenn aðgerð. Vissulega kemur hún misjafnlega niður hjá fólki en neyðarlögin komu öllum til bjargar sem áttu pening í banka og jafnvel þótt það hafi í einhverjum tilvikum verið ellilífeyrisþegar eða þeir sem áttu lítinn sparnað, eða guð má vita hverjir, held ég að alltaf megi fullyrða, hv. þingmaður, að þeir sem eiga pening í banka og geta lagt fyrir eru betur staddir en þeir sem skulda í húsnæði sínu og öðru — svo ekki sé talað um þá sem var bjargað í peningamarkaðssjóðunum.

Ég vona, af því mér fannst hv. þingmaður kannski vera aðeins jákvæðari en fyrri ræðumenn, (Forseti hringir.) að ef þetta reyndist allt saman eins gott, þótt hann hefði áhyggjur af ýmsu, (Forseti hringir.) mundu Vinstri grænir hugsanlega styðja málið. Ég vona að svo verði að endingu.