143. löggjafarþing — 44. fundur,  20. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[13:26]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð eiginlega að biðja hv. þingmann um að hlusta á það sem sagt er. (HöskÞ: Ég geri það.)Ég sagði aldrei að Vinstri hreyfingin – grænt framboð ætlaði ekki að standa að því að 20 milljarðar færu til skuldaleiðréttinga. (Gripið fram í.)Ég sagði ekki að við ætluðum ekki að standa að því, eins og þingmaðurinn fullyrti í andsvari sínu. Það sem ég sagði var að við hefðum greitt atkvæði með tekjuöfluninni. Við treystum því að lagagrundvöllurinn undir því, eins og ríkisstjórnin leggur málið upp, standi. Það hafa verið ýmsar efasemdir um það, ekkert bara frá okkur heldur alls staðar úr samfélaginu. En gott og vel — við treystum því að hann standi. Við greiddum atkvæði með þessari skattheimtu.

Við höfum sagt um ráðstöfunina að við viljum vita nákvæmlega útfærsluna áður en við tökum afstöðu. Er það til of mikils mælst? Ætlast þingmaðurinn til að við komum hér og segjum að við ætlum svo sannarlega að samþykkja það sem ríkisstjórnin hefur í hyggju að gera með þessa 20 milljarða þegar við vitum ekki nákvæmlega hvað það er eða hver áhrifin eru? Mundi hann ekki sjálfur við þær aðstæður, ef hann væri í mínum sporum, segja hið sama, að hann vildi vita hvernig þessir hlutir kæmu út? Það er það sem við erum að segja. Mér finnst ekki til of mikils mælst að segja: Við viljum sjá hvernig útfærslan á að vera.

Við höfum líka bent á, hv. þingmaður, varðandi skattinn á fjármálafyrirtæki í slitameðferð að það á að innheimta þetta á fjórum árum en slitameðferðinni á að ljúka eftir tvö ár. Hvert verður andlagið þegar þau fyrirtæki eru komin út úr myndinni? Okkur finnst þetta ekki alveg nógu skýrt. Það er það sem við erum að biðja um upplýsingar um. Ég sagði líka áðan að þegar frumvarp ríkisstjórnarinnar kemur inn verður efnislegur grundvöllur til þess að ræða þau mál.