143. löggjafarþing — 44. fundur,  20. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[13:28]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hlustaði vel á ræðu hv. þingmanns og legg gjarnan við hlustir þegar hann stígur hér í pontu. Það sem ég hef áhyggjur af og hef lýst vonbrigðum mínum yfir er að Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur lýst því yfir í þessum ræðustól að hún ætli ekki að standa að heimildinni í fjárlögum heldur ætli að sitja hjá. Þannig skildi ég hv. þm. Bjarkeyju Gunnarsdóttur. Ef það er einhver önnur áform held ég að Vinstri hreyfingin – grænt framboð verði að gera þeim skil. Ég skil vel að menn hafi áhyggjur, en að standa ekki að heimildinni finnst mér ganga í berhögg við að menn skyldu þó standa að tekjuöfluninni. Ég hef áhyggjur af þessu.

Hv. þm. Brynhildur Pétursdóttir útskýrði þetta mjög vel. Hún sagði að það væri einfaldlega þeirra skoðun að það ætti að verja fjármununum í annað. Það er mjög skýrt. Ég verð að viðurkenna að ég var að vonast til þess að hv. þingmaður mundi svara þessu öðruvísi, en gott og vel, við skulum láta það liggja á milli hluta.

Varðandi fjármuni í þróunaraðstoð vil ég segja eitt. Það kemur fram í bók sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson skrifaði að ekki hefði staðið til á síðasta kjörtímabili að setja í það aukna fjármuni. Ég veit ekki hvort hv. þingmaður hefur lesið bókina en hann sagði þetta mjög skýrt og einnig að hann hefði barist fyrir því að fá þetta fjármagn inn, en þar hefði fyrst og fremst verið um líf ríkisstjórnarinnar að ræða. Nú er fjárhæðin á pari við það sem ríkisstjórnin ákvað fyrir árið 2012, eftir því sem ég best veit. Auðvitað viljum við auka hana. (Forseti hringir.) Við munum gera það þegar betur árar í ríkisbúskapnum.