143. löggjafarþing — 44. fundur,  20. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[13:32]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Vegna umræðu um flugvallarmálið í Vatnsmýrinni vil ég aðeins láta þess getið, og þakka þingmanni fyrir að vekja athygli á því, að það er mín skoðun, sem ég hef rætt líka við fulltrúa Reykjavíkurborgar, að það hvort umrætt heimildarákvæði sem nú er rætt um verður inni í þessum fjárlögum eður ei hefur ekki bein áhrif á þann samning sem við hæstv. forsætisráðherra undirrituðum fyrir hönd ríkisins við Reykjavíkurborg og Icelandair í lok október sl. Sá samningur er að sjálfsögðu í fullu gildi og það er unnið í samræmi við hann á vettvangi nefndar undir forustu Rögnu Árnadóttur, fyrrverandi dómsmálaráðherra. Markmiðið með þeirri vinnu, eins og kom fram hjá hv. þingmanni, er alveg skýrt, að skoða alla kosti fyrir innanlandsflug á höfuðborgarsvæðinu og þar með talið þann kost að völlurinn verði áfram í Vatnsmýrinni, annaðhvort í núverandi legu eða í breyttri mynd.

Það er að mínu mati, og ég hef ítrekað sagt það úr þessum ræðustól hér og get sagt það aftur, að það er mikil framför í því fólgin og stórmál, bæði fyrir ríki og borg, að menn setjist niður við þetta sameiginlega borð og reyni að finna lausn á þessu máli með hagsmuni allra landsmanna að markmiði. Ég tel verið að því núna.

Hvað varðar það einstaka mál sem um er rætt og lýtur að Skerjafirðinum vil ég taka fram að þær upplýsingar sem komu til dæmis fram í fréttum í gær, að Reykjavíkurborg væri búin að samþykkja skipulag er lyti að Skerjafirði, eru einfaldlega ekki réttar. Þá bendi ég á bókun úr borgarráði frá því í gær þar sem segir að borgarstjórn hafi ákveðið að fresta því skipulagi til þess, eins og stendur í bókuninni, að gefa þeirri nefnd sem nú starfar á vettvangi ríkis, Reykjavíkurborgar og Icelandair fullt svigrúm til að kanna alla flugvallarkosti. Í því skyni er beðið með það skipulag til að tryggja að það verði unnið í framhaldi og í samræmi við niðurstöður nefndarinnar.

Það er það sama og ríkisvaldið gerir; í samræmi við samning frá 1999 og fjölda samninga eftir það tilkynnir það um lokun þriðju brautarinnar en í samræmi við þessa ákvörðun Reykjavíkurborgar verður þeirri braut hins vegar ekki lokað fyrr en niðurstaða þessarar nefndar liggur fyrir (Forseti hringir.) og Reykjavíkurborg mun þá á sama tíma fara í að huga að skipulagi í Skerjafirðinum.