143. löggjafarþing — 44. fundur,  20. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[13:35]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. innanríkisráðherra Hönnu Birnu Kristjánsdóttur fyrir þetta innlegg og þessa yfirlýsingu. Ég tel að þessi yfirlýsing skipti miklu máli. Þó að við hæstv. innanríkisráðherra séum ekki endilega alltaf sammála í pólitík held ég að ég megi fullyrða að í því máli sem við erum hér að ræða fari áherslur okkar mjög vel saman. Þær gerðu það reyndar einnig þegar við störfuðum saman á vettvangi borgarstjórnar Reykjavíkur.

Ég er mjög ánægður með þessa yfirlýsingu, hún er algerlega fullnægjandi fyrir að minnsta kosti mig hvað þetta mál snertir. Ég ber þá von í brjósti að sú nefnd sem er að störfum komist að góðri niðurstöðu sem mætir öllum sjónarmiðum eins og hægt er. Auðvitað er að mörgu leyti togað hvert í sína áttina, en ég tel að það sé hægt að ná niðurstöðu um flugvöllinn, jafnvel áfram í Vatnsmýri, að mínu viti helst í breyttri mynd, þó með þeim hætti að tryggður sé aðgangur að höfuðborginni frá þeim stöðum þaðan sem flogið er. Ég ætlaði að fara að segja alls staðar að af landinu, en flugvöllurinn þjónar nú ekki nema í raun fáum stöðum á landinu sem hafa þangað beint flug. Gott og vel, flugið er mikilvæg samgönguleið og ég tel mikilvægt að hafa það. Ég tel líka mikilvægt að hægt sé að þróa byggð inn á við í höfuðborginni. Það skiptir miklu máli fyrir innviði og uppbyggingu og umhverfislega, sjálfbæra þróun innan höfuðborgarinnar.

Ég fagna þessari yfirlýsingu og tel að hún lýsi því í raun að áfram verði unnið að þessu máli á þeim nótum sem verið hefur og í samræmi við það samkomulag sem gert hefur verið.