143. löggjafarþing — 44. fundur,  20. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[13:41]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs til þess að fagna sérstaklega einni ákvörðun meiri hluta fjárlaganefndar. Hún er að taka út heimildarákvæði fyrir fjármálaráðherra að selja eignarhlut sinn á því landi sem Reykjavíkurflugvöllur er að hluta eða í heilu lagi. Ég held að það sé gríðarlega jákvætt og gott skref og við sjáum áhrifin strax. Það á ekki að fara í að leggja niður þriðju mikilvægustu flugbrautina eins og markmiðið var að gera. Ég held að þetta sé til marks um að Alþingi verður með einum eða öðrum hætti að koma að málinu.

Það er mikið talað um sátt. Mig langar til þess að ræða það örstutt. Í febrúar síðastliðnum var ákveðið af hálfu Akureyrarbæjar og Reykjavíkurborgar að stofna samráðsvettvang þar sem menn mundu fara yfir þessi mál í sameiningu, vegna þess að allir voru sammála um að staðsetning Reykjavíkurflugvallar lyti að almannahagsmunum. Það hefur reyndar verið mikil samstaða um það á Alþingi. Hins vegar var fátt um svör þegar Akureyrarbær leitaði eftir raunverulegu samráði. Aldrei voru fulltrúar Reykjavíkurborgar reiðubúnir að setjast niður og ræða málið. Það er öll sáttin sem hefur verið í málinu.

Ég hef verið þeirrar skoðunar að alveg eins og með Keflavíkurflugvöll eigi Alþingi að hlutast til um skipulagsvaldið á Reykjavíkurflugvelli. Mér finnst það eðlilegt, mér finnst það sanngjarnt. Ég hef ekki heyrt nokkurn mann hreyfa andmælum við því að ríkið fari með skipulagsvald yfir Keflavíkurflugvelli. Af hverju? Jú, það er flugvöllur allra landsmanna. Ég held að mönnum þætti það fyrst óeðlilegt ef bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ gætu með einum eða öðrum hætti ákveðið eða hlutast til um hvernig framtíðarskipulag flugvallarins yrði. Þetta skiptir máli, virðulegi forseti.

Af hverju er Reykjavíkurflugvöllur þar sem hann er, í Vatnsmýrinni? Vegna þess að ítrekað hefur komið fram að þetta er besti staðurinn fyrir innanlandsflug. Hver er annar mögulegur valkostur á flugvelli innan höfuðborgarinnar, innan Reykjavíkur? Það er Hólmsheiði. En hvað gerist? Sú tillaga er alltaf felld, ítrekað. Veðurfræðingar, verkfræðingar, skipulagsfræðingar, hverjir sem er, koma og benda á gallann við að staðsetja flugvöllinn þar, fyrst og fremst er það af veðurfarslegum ástæðum.

Ég er þeirrar skoðunar að Reykjavíkurflugvöllur sé einhver mikilvægasta samgöngubót landsmanna. Hann er ekki einungis það heldur líka aðgangur landsbyggðarinnar að höfuðborginni, höfuðborg allra landsmanna. Það er ekki þannig að Reykjavíkurflugvöllur hafi verið byggður í kringum stjórnsýsluna. Það er öfugt, stjórnsýslan hefur byggst upp í miðborg Reykjavíkur vegna nálægðarinnar við Reykjavíkurflugvöll. Það er mjög mikilvægt að því sé haldið til haga.

Það hefur ríkt sátt um margt á milli höfuðborgar og landsbyggðar. Höfuðborgin nýtur gríðarlega mikils bara við að fá að hafa flestar stjórnsýslustofnanir, öll ráðuneytin og Alþingi Íslendinga, svo ekki sé minnst á Landspítala allra landsmanna sem stóð einu sinni til að byggja í nálægð við flugvöllinn. Ef Reykjavíkurflugvöllur fer, þá fyrst er sáttin rofin.

Það er allra góðra gjalda vert að hin svokallaða Rögnu-nefnd ljúki yfirferð sinni. Ég reyndar tel einsýnt að niðurstaðan verði að Vatnsmýrin sé besta staðfestingin vegna þess að það hefur margítrekað verið niðurstaðan eftir sambærilegar rannsóknir. Þegar niðurstaðan liggur fyrir finnst mér ekki eðlilegt að fulltrúar höfuðborgarinnar taki ákvörðun. Það er eðlilegt að fulltrúar allra landsmanna, þjóðkjörnir fulltrúar á Alþingi taki þá ákvörðun.

Viðhorf ýmissa borgarfulltrúa komu því miður bersýnilega í ljós þegar hinar 80.000 undirskriftir voru afhentar. Þá sagði borgarstjórinn eitthvað í þá veruna að þetta væri svona og svona en að það væri Reykvíkinga að taka ákvörðun. Því er ég innilega ósammála.

Ég lýsi því ánægju minni með þessa tillögu, þ.e. að búið sé að fella þessa heimild á brott. Ég tel að hún skipti gríðarlega miklu máli. Ég er ekki sammála þeim sem halda því fram að ef Reykjavíkurborg tekur einhverja ákvörðun eigi að henda þessari heimild þegjandi og hljóðalaust inn og vísa þar í vilja allra landsmanna. Ég vona að það komi ekki fram breytingartillaga, en við skulum sjá til. Ég vona þá að hún verði ekki samþykkt. Ég fagna því að þetta sé gert á þennan hátt og ég vona líka að frumvarp mitt sem tryggir aðkomu ríkisins verði samþykkt hér á seinni stigum, en það mun væntanlega koma til afgreiðslu Alþingis næsta vor.