143. löggjafarþing — 44. fundur,  20. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[13:48]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Það gerist stundum í stjórnmálunum að einhverri einni stjórnmálahreyfingu tekst eða a.m.k. reynir að eigna sér stórt og jákvætt hugtak í pólitískum áróðurstilgangi. Mér finnst það hafa gerst á undanförnum árum varðandi hugtakið heimili í pólitískri orðræðu á Íslandi. Einn stjórnmálaflokkur hefur haldið því fram að hann ætli að gera hluti fyrir heimilin. Í þeirri yfirlýsingu liggur að aðrir flokkar ætli ekki að gera neitt fyrir heimilin. Ég tel ástæðu til að viðra þetta í upphafi ræðu minnar vegna þess að mér finnst svo gríðarlega mikilvægt að gera athugasemdir við svona stjórnmál.

Núna erum við að fara að ræða 20 milljarða fjárveitingu úr ríkissjóði í aðgerðir til að lækka verðtryggðar skuldir heimilanna sem hafa lauslega verið kynntar. Til stendur að verja 20 milljörðum á ári næstu fjögur árin til þessa verkefnis. Sagt er: Við ætlum að gera þetta fyrir heimilin — og látið liggja í orðunum að þeir sem eru á móti séu á móti því að gera eitthvað fyrir heimilin. Slík stemning myndast oft í pólitískri orðræðu. Það þarf pólitískan kjark til þess að standa gegn svona pressu.

Ég hef þá trú og sannfæringu að við öll sem sitjum í þessum þingsal höfum það að markmiði að búa til betra umhverfi fyrir heimili og fyrirtæki í landinu; öll okkar pólitík miðast við það.

Hvað teljum við í Bjartri framtíð að væri best fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu? Lægri vextir á húsnæðislánum, svo dæmi sé tekið. Komast úr umhverfi óstöðugleika sem sífellt leiðir til verðbólguskota. Það mundi gera að verkum að við þyrftum ekki að búa við verðtryggð lán. Það væri til góðs fyrir heimilin og fyrirtækin ef stöðugleiki kæmist á til að hægt væri að gera áætlanir í íslensku samfélagi sem stæðust. Ef gripið væri til verkefna til að auka fjölbreytni í atvinnulífi mundi það koma íslenskum heimilum til góða. Það mundi auka útflutningstekjur ef skynsamlega er á málum haldið, sem eykur aftur stöðugleika. Agi í ríkisfjármálum er heimilum til góða vegna þess að agaleysi eykur óstöðugleika og verðbólgu. Góður gjaldmiðill sem við getum stólað á kæmi heimilum til góða. Lækkun á verðlagi kæmi heimilum mjög til góða. Betri kjör, aukinn kaupmáttur. Við erum að fara að ræða kjarasamninga á komandi mánuðum. Það kæmi heimilum til góða, en staðreyndin er sú að það óstöðugleikaumhverfi sem við búum við hefur gert kjarabætur mjög erfiðar á Íslandi. Styttri vinnuvika og meiri framleiðni á vinnumarkaði, svo að við þyrftum ekki að vinna miklu meira til að ná sama árangri miðað við nágrannaþjóðirnar, væri heimilum mjög til hagsbóta.

Það er svo margt sem þarf að ræða ef við ætlum að ræða hvernig við ætlum að bæta samfélagið, bæta umgjörð heimilisrekstrar og atvinnulífs. Mér finnst orðræðan á Íslandi núna, sérstaklega í þessum sal og í kosningabaráttunni síðustu, vera einhvern veginn þannig að einn flokkur aðhyllist mjög róttækar og öfgafullar hugmyndir um það hvernig eigi að verja fjármunum til ákveðinna hópa í samfélaginu og hann kallar það að aðstoða heimilin og þeir sem eru á móti þeirri leið eru á einhvern hátt á móti heimilunum. Við mótmælum þessu.

Á eftir stendur til að greiða atkvæði um það hvort við ætlum að verja fyrstu 20 milljörðunum af fjórum á þessu kjörtímabili til verkefnis sem ber heitið, að ég held, í fjárlagatillögunni: Niðurgreiðsla verðtryggðra skulda heimilanna. Engar efnahagstillögur fylgja þessari tillögu og engin áætlun um að taka á rót vanda íslensks efnahagslífs. Það fylgir ekki einu sinni sýn um það hvernig á að koma á meiri stöðugleika í íslensku efnahagslífi. Sagt er að það eigi að leiðrétta forsendubrest. En hverjar eru forsendurnar og hafa verið um áratugaskeið í íslensku samfélagi? Sveiflur á verðlagi, mikil verðbólga, verðtryggð lán. Þetta þarf að laga. Það þarf að laga forsendurnar. Í rauninni mátti ganga út frá því og hefur mátt ganga út frá því og má í rauninni enn ganga út frá því að einhvern tímann komi aftur verðbólguskot ef ekkert verður að gert. Þá mælist ég til þess að við köllum það ekki forsendubrest því að það eru nákvæmlega forsendurnar. Það eru þær sem þarf að laga. En þessari áætlun um útdeilingu opinberra fjármuna fylgir engin sýn, engin áætlun um það hvernig á að koma á meiri stöðugleika í íslensku efnahagslífi.

Það eru verulegar líkur á að nú eigi enn og aftur að pissa í skóinn, að þessar aðgerðir sem lækka höfuðstól verðtryggðra lána hjá sumum heimilum verði étnar upp með verðbólgu af forsendunum á örskömmum tíma. Hvað segjum við þá?

Þessi tekjustofn er þar að auki verulega ótryggur. Ég vil leyfa mér að segja að ef atkvæði fara eins og búast má við, að þetta verði samþykkt, þá föllum við í nákvæmlega sömu áhættusæknina og hefur orðið íslensku samfélagi að falli hvað eftir annað.

Það stendur einfaldlega í greinargerð með frumvarpi um bankaskattinn, þar sem hann kom til atkvæðagreiðslu, að tekjustofninn mundi einungis vara í tvö ár. Þessar aðgerðir eru boðaðar í fjögur ár. Þetta gengur ekki upp. Hæstv. fjármálaráðherra, aðspurður um þetta af mér í gær, gat ekki svarað því skýrt hvað mundi gerast ef tekjurnar fjöruðu út á miðju kjörtímabili. Þá mun okkur allt í einu vanta 40 milljarða til að standa við loforðið um að færa niður verðtryggðar skuldir heimilanna. Hvað gerum við þá? Það er sagt að semja eigi einhvern veginn við kröfuhafana, nýta eitthvert svigrúm, en allar þær tillögur eru óútfærðar. Við vitum ekki hvað tekjustofninn sem á að fjármagna þessar aðgerðir duga okkur langt. Það er veðmál, það er áhættusækni og ég leyfi mér að segja dálítið dæmigert fyrir íslensk stjórnmál að fara í slíkt veðmál. Við mótmælum því.

Miðað við kynningu á boðuðum aðgerðum, sem þessir 20 milljarðar eiga að fara í og svo aðrir 20 og svo aðrir 20 og enn aðrir 20, liggur fyrir að í sumum tilvikum mun einhverjum heimilum verða hjálpað úr erfiðri stöðu en í mjög mörgum tilvikum þar sem fólk glímir við mikinn greiðsluvanda á húsnæðislánum munu þessar aðgerðir ekki þýða neitt. Fyrir liggur greining á því. Fullt af fólki á í miklum greiðsluvanda og getur einfaldlega ekki borgað af húsnæðisskuldum, sama þótt þær séu færðar niður. Þessar aðgerðir hjálpa ekki því fólki, þær gera það ekki. Í stórum hluta tilfella er bara um ríkisvæðingu einkaskulda að ræða. Ég sé ekki betur. Er það rétt ráðstöfun opinberra fjármuna?

Ég hitti mann í gærmorgun, í morgunmyrkrinu sem fór yfir stöðu sína brosandi út í annað. Hann sagðist eiga stóra eign en skulda þó nokkuð í henni, en ekkert sem hann réði ekki við og það væru bara eðlilegar skuldir. Hann sagði brosandi út í annað rétt eins og hann vissi ekki alveg hvort hann ætti að vera glaður eða undrandi: Ég fæ 4 milljónir. Svo gekk hann spengilegur út í morgunmyrkrið.

Er þetta það sem við viljum? Viljum við verja opinberu fé svona? Er það nauðsynlegt? Hvers lags hagstjórn er það? Til hvers erum við að hvetja með slíkri beinni og ástæðulausri ríkisvæðingu einkaskulda? Til hvers? Þessar spurningar blasa einfaldlega við, virðulegur forseti.

Við sjáum ekki hvernig við getum stutt það að verja 20 milljörðum af skattfé til þessara aðgerða. Það er líka í meira lagi skrýtið að eyrnamerkja fyrst 20 milljarða í einhverjar aðgerðir á meðan frumvörp um aðgerðirnar liggja ekki fyrir í þinginu og aðgerðirnar hafa, ég leyfi mér að segja aldrei af neinn dýpt verið ræddar í þinginu. Það er í meira lagi undarlegt.

Ég mundi segja að við ættum að anda ofan í kviðinn og reyna fyrst að fá þessar tekjur. Svo skulum við skoða hvernig við nýtum þá peninga til hagsbóta fyrir heimilin og fyrirtækin, ég legg áherslu á það — til hagsbóta fyrir heimilin og fyrirtækin. Hefur farið fram einhver greining á því hvernig hægt er að nota 20 milljarða á þessu ári, 20 milljarða á næsta ári, 20 milljarða á þarnæsta ári og 20 milljarða aftur, 80 milljarða samtals, sem best til hagsbóta fyrir íslenskt samfélag?

Fjárþörf íslenska ríkisins, velferðarkerfisins, menntakerfisins, innviðanna, er gríðarleg eftir mikinn niðurskurð undanfarinna ára af augljósum ástæðum. Munum við ekki einhvern tímann þurfa að ráðast í nauðsynlegt viðhald og uppbyggingu á þessum innviðum? Ætlum við að láta börnin okkar borga það? Hver á að borga það? Mun ekki heyrast eitthvert hljóð úr horni þegar við ætlum væntanlega á næsta ári að samþykkja hér annað vers af þessum 20 milljörðum í skuldaniðurfellingar ef þá verður t.d. neyðarástand í heilbrigðisþjónustu? Heilbrigðiskerfið er algjörlega á bjargbrúninni. Þar er gríðarleg uppbyggingarþörf. Hvað ef hún verður nú öllum ljós á miðju kjörtímabilinu og í það mun vanta gríðarlegt fé? Þá erum við búin að lofa þessu fjármagni í ómarkvissar skuldaniðurfellingar.

Hvað ef krónan hrynur? Krónan er í gjaldeyrishöftum núna. Það er allt í járnum. Landsbankinn þarf að greiða 300 milljarða á gjalddaga af erlendum lánum til gamla Landsbankans. Það getur haft áhrif á gengið. Sveitarfélög og fyrirtæki þurfa að greiða á gjalddaga háar upphæðir. Gengið gæti hrunið. Þetta er erfitt hagstjórnarverkefni. Hvað ef það gerist? Á þá að bæta það líka? Þýðir það meiri útdeilingu opinberra fjármuna til þessa verkefnis? Hvers lags hagstjórn er það? Á hvaða leið erum við?

Hér á að stilla okkur upp við vegg. Hér er sagt: Ef þið eruð á móti þessu viljið þið ekkert gera fyrir heimilin. Því mótmælum við. Ég er búinn að fara yfir það hér í mörgum liðum hvernig pólitík Bjartrar framtíðar snýst um það að gera eitthvað fyrir heimilin og fyrirtækin til langs tíma en ekki pissa í skóinn endalaust. (HöskÞ: Þetta var málefnalegt.) — Já, ég er mjög málefnalegur, hv. þm. Höskuldur Þórhallsson. (HöskÞ: Frekar …) Ég er að fara yfir það hérna í mörgum liðum hvernig við leggjumst gegn þessari boðuðu áætlun. Þú verður einfaldlega að sætta þig við að það er ekkert eitt rétt í þessu og sannleikurinn er ekki bara ykkar megin. Það eru fjölmargar leiðir til að koma til móts við heimilin og fyrirtækin og ég er að fara yfir það í þessari ræðu. Ég er líka að fara yfir það hvernig tekjustofninn er ótryggur og hvernig þetta lýsir áhættusækni.

Hvernig væri skynsamlegast að verja slíkum peningum að okkar mati? Ef þetta er tímabundinn tekjustofn, ef hann kemur hugsanlega inn í eitt ár, hugsanlega í tvö, kannski þrjú, við vitum það einfaldlega ekki, hvernig er skynsamlegt að verja slíkum peningum? Ríkissjóður er yfirskuldsettur. Við greiðum 75 milljarða á ári í vaxtagjöld út af skuldum ríkissjóðs. Það er höfuðviðfangsefni íslenskra efnahagsmála að ná niður þessum skuldum, annars erum við endalaust að greiða vaxtagjöld og börnin okkar verða að greiða vaxtagjöld. Það hefur engin greining farið fram á því af hálfu efnahags- og fjármálaráðuneytisins hvort skynsamlegt væri að nota þessa peninga til að greiða niður opinberar skuldir og það er ámælisvert.

Ég held að þessum peningum, sem eru tímabundnar upphæðir sem fara inn í ríkissjóð, væri best varið í að greiða niður opinberar skuldir og til skynsamlegra fjárfestinga sem skapa störf, sem skapa arð og til nauðsynlegra viðhalds- og uppbyggingaverkefna sem við verðum hvort sem er að fara í á komandi árum og munu kosta peninga. Ég held að það væri skynsamlegt. Það væri til hagsbóta fyrir fyrirtækin. Það væri til hagsbóta fyrir heimilin. En hér á að afgreiða þetta stóra spursmál á einum eftirmiðdegi út af einhverjum áróðri um að það sé bara ein leið til að gera eitthvað fyrir heimilin.

Virðulegi forseti. Þetta er misráðið að okkar mati. Það hefur engin greining farið fram á fórnarkostnaðinum við það að nota þessa peninga svona. Af þeim sökum getum við ekki stutt þetta mál. Við teljum samt mjög mikilvægt að gera marga hluti varðandi skuldamál heimilanna. Við minnum líka á að það er búið að gera mjög mikið og ef einhverjir liðir væntanlegrar áætlunar hugnast okkur betur en aðrir munum við væntanlega styðja það, en svona ómarkvissa útdeilingu opinberra fjármuna, ekki bara í eitt ár, heldur tvö, þrjú og fjögur, með svo ótryggum tekjustofni og á óljósum pólitískum forsendum getum við ekki stutt.