143. löggjafarþing — 44. fundur,  20. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[14:43]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fyrir ræðu hans. Mér heyrist hv. þingmaður vera sammála því eða vera á því og ég trúi ekki öðru en að hann fagni þessum aðgerðum fyrir heimilin í landinu, en ég velti fyrir mér hvernig hann getur fengið út að þetta komi sér vel fyrir eitt heimili en ekki annað. Ég hefði haldið að ef forsendubrestur verður hjá einum aðila sem er með verðtryggt lán, hvenær sem hann tók lánið, sé það sami forsendubrestur og hjá þeim sem tóku lánið á einhverjum öðrum tíma. Annaðhvort er forsendubrestur á þessu tímabili eða ekki. Ég held, burt séð frá því hvernig menn standa eða hvernig lánin standa, að ef menn eru sáttir við að það sé forsendubrestur — verður ekki að ganga jafnt yfir alla hvenær sem lánin voru tekin? Ef þú ert með verðtryggð lán á einhverju tímabili og það verður forsendubrestur á því tímabili hlýtur það að eiga við öll lán, hvenær sem þau voru tekin.