143. löggjafarþing — 44. fundur,  20. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[14:50]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er kannski að einhverju leyti spurning um hvaða hugtök við veljum okkur að nota. Það má auðvitað segja að allir á Íslandi hafi orðið fyrir forsendubresti, það er óskaplega vinsælt orð, við urðum öll fyrir áfalli hérna. Verðbólgan kom sér illa fyrir alla, hún kom sér mjög illa fyrir marga aðra en þá sem voru með verðtryggð íbúðalán. Ég hugsa að sennilega mætti segja að sá hópur sem hafi orðið fyrir mestum forsendubresti af öllum séu þeir sem leigja í Félagsbústöðum eða leigja í sambærilegri leigu þar sem leigan er verðtryggð. Mér er ekki kunnugt um að sá hópur hafi fengið eina einustu hjálp. Hann fékk á sig fulla verðbólguhækkun á leigunni af því hún er verðtryggð. Var það ekki forsendubrestur? Var það ekki högg?

Hitt er alveg ljóst að höggið sem kom á verðtryggð íbúðalán, við erum bara að tala um þau hér, er mismikið eftir því hvenær lánin voru tekin og í hvaða stöðu þú varst þegar hrunið verður. Þeir sem tóku lán árin rétt á undan eru í fyrsta lagi með fullt lán. Lánið er nýtt og ekkert byrjað að borgast niður. Það tekur fullt högg á sig. Í öðru lagi keyptu þeir íbúðir eða byggðu á uppsprengdu verði eins og fasteignamarkaðurinn var þá, þannig að þeir eru skuldugri en þeir sem nutu góðs af hagstæðara fasteignaverði áður. Það er þetta sem ég á við, að staða hópanna er ólík að þessu leyti. Það sýna það allar greiningar. Þær gera það.

Hvað ætlum við að leiðrétta? Ætlum við að leiðrétta yfir allt tímabilið, taka líftíma allra verðtryggðra lána? Eigum við að reyna að reikna út á hvaða tímabilum lánið hækkaði minna en laun og fasteignaverð og á hvaða tímabilum það hækkaði meira og netta þetta út? Ef það er mínus tökum við hann. Hvað væri aðgerðin þá orðin stór? Hún væri sennilega hrunin niður í fáeina tugi milljarða hið mesta. (Forseti hringir.) Þá kæmi nefnilega í ljós að sá hópur sem situr (Forseti hringir.) aðallega uppi með höggið eru þeir sem tóku lánin á árunum frá 2002–2004 (Forseti hringir.) og fram að hruni og sérstaklega þeir (Forseti hringir.) sem voru að kaupa sína fyrstu íbúð.