143. löggjafarþing — 46. fundur,  21. des. 2013.

tekjuskattur.

265. mál
[14:24]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hér er verið að koma til móts við tillögur Alþýðusambands Íslands um tekjuskattslækkun sem við í Samfylkingunni gerðum að okkar við umfjöllun fjárlaga en stjórnarmeirihlutinn felldi.

Hér er því miður aðeins komið að hluta til til móts við þær tillögur og enn fremur voru uppi í kjaraviðræðunum óskir um það að í stað þess að lækka tekjuskatt, einkanlega á þá sem eru í hátekjuþrepinu um hálft prósent, yrði persónuafsláttur hækkaður þannig að kæmi til góða þeim sem lægst eru launaðir. Ég undrast það hvers vegna Framsóknarflokkurinn, eftir yfirlýsingar hæstv. forsætisráðherra um að hækkun á persónuafslætti kæmi vel til greina í þessu sambandi, skuli leggjast gegn því að 10% lægst launaða fólksins í landinu fái hækkun á persónuafslætti og haldi svo fast við það að lækka eigi tekjuskattinn hjá okkur alþingismönnum og öðrum þeim sem eru í hátekjuþrepinu mest í landinu. 40 þús. kr. fyrir hæst launaða fólkið í landinu í skattalækkun en hafnað að hækka persónuafsláttinn til góða fyrir þá lægst launuðu. Hvernig stendur á þessu, hv. þm. Frosti Sigurjónsson?