143. löggjafarþing — 46. fundur,  21. des. 2013.

tekjuskattur.

265. mál
[14:31]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það kemur svo sem ekki á óvart að Framsóknarflokkurinn treysti sér ekki til að svara spurningum um þetta efni. En það er fagnaðarefni að hæstv. fjármálaráðherra hrekst nú til baka með hluta af þeim fyrirætluðu tekjuskattslækkunum á okkur í hátekjuþrepinu sem ríkisstjórnin ætlaði að samþykkja í gær og komi þó að einhverju leyti til móts við fólk með meðaltekjur og lægri, eins og krafa Alþýðusambandsins hefur verið um. En það er hörmulegt til þess að vita að í tekjuskattslækkununum, sem út af fyrir sig eru fagnaðarefni, er venjulegt vinnandi fólk með 250 þús. kr. á mánuði og þaðan af lægra, fólk á strípuðum töxtum, fólk í hlutastörfum, í umönnunarstéttum og úti um allt samfélagið, kannski 10% tekjulægsta fólksins á vinnumarkaði, skilið algjörlega eftir, fær enga léttingu á sínum byrðum í þessum aðgerðum.

Sem betur fer tekst núna að knýja ríkisstjórnina til þess að koma sérstaklega til móts við fólk á bilinu 250–290 þúsund og láta fólk með millitekjur njóta eilítils ávinnings, en haldið er rígfast í það að tekjuhæsti hópurinn, fólkið í hátekjuþrepinu fái á fjórða tug þúsunda króna í skattalækkun meðan lægst launaða fólkið á vinnumarkaði fær ekki neitt. Og jafnvel þó að hæstv. fjármálaráðherra sé hægri maður og formaður Sjálfstæðisflokksins hlýtur maður spyrja: Hvernig réttlætir hann það að sneiða þannig algjörlega fram hjá lægst launaða fólkinu í landinu en færa okkur sem hér sitjum á fjórða tug þúsunda í skattalækkun?