143. löggjafarþing — 46. fundur,  21. des. 2013.

tekjuskattur.

265. mál
[14:35]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir að staðfesta að við höfum staðið vörð um fólkið með lægstu tekjurnar á síðustu árum. Ég fagna því líka að fólkið með millitekjurnar nýtur núna nokkurs ávinnings, þökk sé Alþýðusambandinu sem beygði ríkisstjórnina til breytinga í gær. En ég harma það að helmingurinn af aðgerðunum eigi eftir sem áður fyrst og fremst að koma til góða þeim sem eru með á áttunda hundrað þúsund kr. í mánaðarlaun, einstaklingar, en að 10% lægst launaða fólksins á vinnumarkaði eigi ekki að fá neitt í tekjuskattslækkun.

Ég tel að alveg eins og við vörðum tekjulægsta fólkið í kreppunni þurfum við engu að síður að láta það taka þátt í lífskjarabatanum og þeim skattalækkunum sem sem betur fer er hægt að ráðast í í dag.