143. löggjafarþing — 46. fundur,  21. des. 2013.

tekjuskattur.

265. mál
[14:52]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég átta mig ekki á því hvernig hv. þingmaður hefur heyrt þessa ræðu áður því að það er nýtt að ríkisstjórn sem fær um það ósk frá aðilum vinnumarkaðarins að koma að því að brúa kjarasamninga hafni því að koma með úrlausn fyrir þá sem minnst hafa á milli handanna, fólkið á lægstu laununum, þó að bent hafi verið á leið til að fjármagna það.

Það er líka nýtt að ríkisstjórn skuli spila út skattbreytingum í tengslum við gerð kjarasamninga sem leiða það af sér að 10% þeirra sem minnst hafa á milli handanna fá ekkert en þau 10% sem mest hafa á milli handanna fá 3.500 kr. á mánuði. (Gripið fram í.) Það er nýnæmi og það er ómögulegt að hv. þingmaður hafi heyrt þá ræðu áður (PHB: Jú, jú.) því að við höfum blessunarlega ekki haft svona vonda ríkisstjórn áður. (Gripið fram í: Heyra þetta!)