143. löggjafarþing — 46. fundur,  21. des. 2013.

tekjuskattur.

265. mál
[15:08]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að byrja á því að segja að við hv. þingmaður deilum ekki sýn á þörfina fyrir skattkerfisbreytingar en mér finnst jákvætt og uppbyggilegt að geta hér í þinginu tekist með málefnalegum hætti á um það hvernig við eigum að hafa skattkerfið. Ég vonast til þess að sú umræða haldi áfram og hún skili einhverju.

Mig langar að gera nokkrar athugasemdir við ræðu hv. þingmanns þegar kemur að því hvernig skattkerfið virkar og hvaða áhrif þær breytingar sem við mælum fyrir munu hafa.

Í fyrsta lagi er um að ræða skattalækkun. Það kemur mér á óvart hversu mikill hvellur verður í þinginu vegna þess að lækkunin nær ekki niður í allra lægstu laun. Þá er mikilvægt að hafa það í huga að ríkið fær engan tekjuskatt til sín fyrr en laun eru komin yfir um 230 þús. kr. vegna þess að ríkið tekur að sér að standa skil á útsvari til sveitarfélaganna vegna skatts á launum sem eru undir þeim mörkum.

Í öðru lagi hefur kerfið þróast þannig á undanförnum árum að með þriggja þrepa kerfi og miklum tekjutengingum á barnabótum, á vaxtabótum og annars staðar í bótakerfinu erum við komin með þá stöðu að fyrir hjón með meðaltekjur, segjum í kringum 400 þúsund, það dugar að vera komin í um 500 þús. kr. í laun á mánuði og upp í 1 milljón kr., sem væru dæmigerð meðallaun fyrir hjón, eru jaðarskattarnir út af tekjutengingum í bótakerfinu komnir yfir 50% þannig að meira en önnur hver króna í launahækkun fer í skerðingu bóta eða í beinar skattgreiðslur. Þær breytingar sem við erum nú að mæla fyrir eru til þess fallnar að byrja að draga úr jaðaráhrifum skatta. Það finnst mér vera gríðarlega mikilvægt.