143. löggjafarþing — 46. fundur,  21. des. 2013.

tekjuskattur.

265. mál
[15:13]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel að það ætti að vera alveg sérstakt kappsmál hjá okkur að einfalda og gera skattkerfið gagnsærra þannig að fólk geri sér betur grein fyrir því hver réttindi þess eru í kerfinu. Í dag tel ég að fólk átti sig á því að mestu leyti þegar það hefur loks fengið álagningarseðil eftir að hafa talið fram hver áhrifin eru.

Þetta mun t.d. gilda um þá kjarasamninga sem nú eru í burðarliðnum. Fólk mun þurfa að taka saman: Hver er árleg vaxtabyrði mín? Á hvaða aldri eru börnin mín? Hversu mörg eru þau? Hver er eignarstaðan? Þegar menn hafa tekið alla þessa þætti með inn í myndina og borið saman við það sem ríkisstjórnin er að gera annars vegar og menn hafa komið sér saman um á vinnumarkaði hins vegar getur hver og einn fundið út úr því fyrir sig hverjar kjarabæturnar á endanum verða.

Mig langar að segja örstutt varðandi aðgerðir fyrri ríkisstjórnar sem snúa að lægsta tekjuhópnum. Það er rétt, eins og ég tók fram, að skapað var sérstakt nýtt skattþrep fyrir tekjulægsta hópinn. Það eru þó einungis 600 milljónir sem koma inn í ríkiskassann frá þeim sem eingöngu greiða skatt í neðsta þrepinu. Það eru 600 milljónir af rúmlega 100 milljörðum, þ.e. innan við 1%. Rétt um 6% launþega eru eingöngu í neðsta þrepinu. En þessi hópur þurfti auðvitað líka að horfast í augu við það á síðasta kjörtímabili að yfir ákveðið tímabil var persónuafslátturinn ekki verðtryggður, en einmitt þá geisaði verðbólga í landinu og af því hlaust kjaraskerðing fyrir þennan hóp. Þegar við ræðum um það hvernig hann komst frá síðasta kjörtímabili verður að taka þá mikilvægu lagabreytingu með í reikninginn og þá kemur ekki alveg jafn falleg mynd út. En það er kannski hægt að segja fyrrverandi ríkisstjórn til varnar að það hefði verið gríðarlega dýr aðgerð á þeim tíma þegar fyrir séð var að mikil verðbólga var í kortunum að tryggja persónuafsláttinn. En höfum í huga að hann mun hækka núna um (Forseti hringir.) áramótin um 4,2%.