143. löggjafarþing — 46. fundur,  21. des. 2013.

tekjuskattur.

265. mál
[15:35]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við sjáum að keppnin heldur áfram. Ef mér missýndist ekki kemur hér næstur hv. þingflokksformaður Samfylkingarinnar og mun reyna að toppa formann sinn, og svo sjáum við í fréttunum í kvöld hvor verður ofan á.

Athugasemdir hv. formanns Samfylkingarinnar, hv. þm. Árna Páls Árnasonar, eru svolítið sérkennilegar. Í fyrsta lagi virðist hv. þingmaður gera ráð fyrir því að forsætisráðherra eigi að stjórna Alþýðusambandinu og telur að ég hafi ekki stjórnað Alþýðusambandinu og við séum hér að horfa upp á afleiðingar þess. Það er ekki svoleiðis, virðulegur forseti, þó að slíkt hafi kannski verið reynt á síðasta kjörtímabili með mjög litlum árangri.

Það sem hér er að gerast er að stjórnvöld sýna árangur af samráði við aðila vinnumarkaðarins, nokkuð sem vantaði algjörlega á undanförnum fjórum árum. Hér er að nást árangur af samráði milli stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins. Með því samstarfi held ég að ég megi fullyrða að mjög góð niðurstaða sé að fæðast.

Svo nefnir hv. þingmaður hækkun á persónuafslætti. Ég veit ekki til þess að samstaða sé um það hjá Alþýðusambandinu að fara þá leið. Ég hef reyndar heyrt forseta Alþýðusambandsins lýsa áhuga á því. Ég hef líka sagt að það sé sannarlega þess virði að skoða það, enda kemur fyrir að ég og forseti Alþýðusambandsins séum sammála. En það var ekki krafa Alþýðusambandsins, a.m.k. er það þá breyting á allra síðustu dögum sé það nú orðin krafa sambandsins, og hefði ekki verið líklegt til þess að skila þeim árangri sem nú hefur náðst, þ.e. að menn eru að ná saman, stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins eru að ná saman að því marki að kjarasamningar verða kláraðir fyrir áramót, nokkuð sem ég held að fáir (Forseti hringir.) hafi gert ráð fyrir fyrir fáeinum dögum.