143. löggjafarþing — 46. fundur,  21. des. 2013.

tekjuskattur.

265. mál
[15:41]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er broslegt hvað hæstv. forsætisráðherra er jafnan viðkvæmur fyrir gagnrýni. Auðvitað er gleðiefni að hann hafi verið hrakinn til baka með niðurskurðinn á Landspítalanum með þeirri gagnrýni. Sú gagnrýni hefur hrakið til baka fyrirætlanir um sjúklingaskatt, hrakið til baka áætlanir um að taka desemberuppbót af atvinnuleitendum, hrakið til baka skerðingu á barnabótum, hrakið til baka niðurskurð á skattaívilnunum fyrir nýsköpunarfyrirtæki og þannig gætum við haldið áfram. Það er sannarlega ástæða til þess að gleðjast yfir því en umræðan hér í ræðustól þingsins á út af fyrir sig ekki að snúast um það yfir hverju við gleðjumst sérstaklega í dag heldur um efni mála.

Spurningin sem hæstv. forsætisráðherra þarf að svara er þessi: Er það sanngjarnara að hans mati að hækka persónuafslátt, sem kemur þá líka til góða og með sama hætti fólkinu sem lægst laun hefur á vinnumarkaði, en að lækka fyrst og fremst hlutfallslega okkur sem erum í hátekjuþrepinu? Er það skoðun forsætisráðherra, eins og hefur mátt ætla af fjölmiðlaviðtölum við hann, og pólitísk sannfæring hans sem formanns Framsóknarflokksins að betra sé að hækka persónuafslátt en að lækka skatta á okkur í hátekjuþrepinu um 0,5% sem skilar hverju okkar eitthvað á fjórða tug þúsunda í skattalækkunum? Er sanngjarnara að láta kjarabæturnar koma í gegnum persónuafsláttinn sem kemur öllum til góða, mér og hæstv. forsætisráðherra með sömu krónutölu og hinum sem eru að vinna lægst launuðu störfin á vinnumarkaði?