143. löggjafarþing — 46. fundur,  21. des. 2013.

tekjuskattur.

265. mál
[15:45]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er sannarlega ástæða til að ítreka gleðiefnin sem greinilega truflar dálítið hæstv. forsætisráðherra að séu rifjuð upp, þ.e. niðurskurðurinn á Landspítalanum gengur til baka, niðurskurðurinn á barnabótunum gengur til baka, sjúklingaskattarnir ná ekki fram að ganga og þar fram eftir götunum. Hæstv. forsætisráðherra forðaðist það í allar tvær mínúturnar, þó að sérstaklega væri kallað fram í og leitað eftir því, að svara þeirri einu spurningu sem sett var fram í andsvari. Það var auðvitað vegna þess að það er viðkvæmt fyrir hæstv. forsætisráðherra að svara því. Hann var bara spurður hvort honum þætti sanngjarnara að hækka persónuafslátt en að lækka tekjuskattsprósentuna hjá mér, honum og öðrum í hátekjuþrepi, hvort honum fyndist það sanngjarnt að hafa afnám auðlegðarskattsins í forgangi eins og ríkisstjórn hans gerir en ekki að létta skattbyrði hinna lægst launuðu sem hefur því miður þyngst. Þeir eiga líka að njóta þess nú þegar loksins er að skapast svigrúm. Það er sannfæring mín. Ef einhver áhöld eru um það að verkalýðshreyfingin vilji það eða vilji það ekki þá held ég að það hljóti að kalla á að efnahags- og viðskiptanefnd kanni hvernig málið stendur. Ef það er vilji hæstv. forsætisráðherra að hækka persónuafsláttinn og vilji er til þess í verkalýðshreyfingunni í tengslum við kjarasamninga þá hljótum við einfaldlega að gera breytingar í þá veru til að tryggja það að lægst launaða fólkið á vinnumarkaði verði ekki skilið eftir í þessum aðgerðum.