143. löggjafarþing — 46. fundur,  21. des. 2013.

tekjuskattur.

265. mál
[15:47]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nú telst mér til að hv. þingmaður sé búinn að fara með nógu margar rangfærslur til að hafa náð forustu í keppninni við formann sinn og spái ég því að þingflokksformaður Samfylkingarinnar verði fyrr í fréttum kvöldsins. Ég óska honum til hamingju með það.

Eitt af því sem hv. þingmaður fór rangt með var að núverandi ríkisstjórn hefði ákveðið að afnema auðlegðarskattinn. Það var ekki núverandi ríkisstjórn, hún gerði ekkert með það, það var síðasta ríkisstjórn sem ákvað hvenær auðlegðarskatturinn ætti að detta upp fyrir. (Gripið fram í.) Þáverandi fjármálaráðherra lýsti því sérstaklega yfir að hún teldi mikilvægt (Gripið fram í.) að skatturinn yrði ekki framlengdur. (Gripið fram í.) Virðulegi forseti, sættir hv. þingmaður sig ekki við að vera svarað?

(Forseti (KLM): Ég vil biðja þingmenn um að gefa ræðumanni sem er í ræðustól tækifæri til svara og vil biðja aðra þingmenn um að hafa hljóð á meðan.)

Ég veit að þetta er viðkvæmt en hv. þingmaður verður að stilla sig svo að ég hafi hér ráðrúm til að svara ítrekaðri spurningu hans, en hún sneri að því hvaða fyrirkomulag skattlagningartekna hugnaðist mér best. Því er auðsvarað. Það er það fyrirkomulag sem gerir sem flestum kleift að bæta kjör sín og skapar hvata fyrir bæði vinnuveitendur og launþega til að auka tekjur. Það er það fyrirkomulag sem menn hafa verið að færa sig yfir á Norðurlöndunum á undanförnum árum, m.a. í Svíþjóð og í Danmörku, og það er það fyrirkomulag sem unnið er að nú, að gera fólki kleift að vinna sig upp, afla meiri tekna og bæta kjör sín í stað þess að viðhalda fyrirkomulagi sem í rauninni heldur fólki í lægsta tekjuþrepinu og lokar það þar af. En það hefur stundum geðjast sósíalistum best vegna þess að þeir telja að þeir nái ekki árangri nema fólk hafi það slæmt efnahagslega. Það er ekki stefna þessarar ríkisstjórnar. Stefna hennar er að bæta kjör allra.