143. löggjafarþing — 46. fundur,  21. des. 2013.

tekjuskattur.

265. mál
[15:49]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mér finnst mikilvægt að leggja orð í belg um það frumvarp sem við höfum nú til umræðu. Ég vil fyrst segja að að sjálfsögðu boðar þetta frumvarp breytingar til batnaðar frá því sem hér var samþykkt í gær. Við erum að bæta kjör verulegs hóps fólks og að sjálfsögðu er það fagnaðarefni að kjarasamningar séu að nást. Af því að hæstv. forsætisráðherra spurði sérstaklega um það hvort stjórnarandstaðan leyfði sér ekki að gleðjast þá vil ég segja það við hæstv. forsætisráðherra að að sjálfsögðu leyfum við okkur að gleðjast en það breytir því ekki að Alþingi á alltaf að vera vettvangur fyrir skoðanaskipti og gagnrýna umræðu. Þó að við getum glaðst yfir því sem vel gengur eigum að viðra önnur sjónarmið. Ég vona að hæstv. forsætisráðherra gefi sér tíma til að hlusta á mína stuttu ræðu um þessi mál.

Þær skattkerfisbreytingar sem voru boðaðar í haust sem og fjárlög eru auðvitað til marks um mjög skarpa hugmyndafræðilega breytingu. Hér hefur verið rætt um þær breytingar og ég get líka tekið undir það og við náum að ræða það lítillega á eftir þegar við göngum frá fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar að vissulega hafa verstu agnúarnir verið sniðnir af því frumvarpi í meðförum þingsins og ekki síst núna á lokametrunum. Eigi að síður er það mitt mat að fjárlögin sem verða samþykkt hér á eftir feli í sér niðurskurð á sóknarfærum. Þá vísa ég sérstaklega til menntunar, nýsköpunar og rannsókna sem því miður fara illa út úr því fjárlagafrumvarpi sem liggur fyrir. Þar hefði ég viljað sjá markvissari örvun tækifæra sem skipta máli til að efla hér vöxt og ekki síst í greinum sem ganga ekki á takmarkaðar auðlindir landsins

Þótt breytingarnar séu til batnaðar tek ég undir með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni sem er fulltrúi okkar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í efnahags- og skattanefnd og stendur að þessu frumvarpi með fyrirvara. Ég hefði viljað sjá meiri umbætur fyrir lægst launaða hópinn af því að með skattkerfinu og uppbyggingu þess höfum við gríðarleg áhrif á það hvernig samfélag við byggjum. Þar getum við haft ýmis sjónarmið að leiðarljósi. Við getum stuðst við ákveðna hugmyndafræði, við getum stuðst við ákveðnar kenningar, við getum spurt út frá nytjastefnunni hvaða breytingar á skattkerfinu hagnast flestum best, en við megum ekki gleyma því að spyrja líka hvað við teljum réttlátar breytingar og hvað við teljum ranglátar breytingar. Ég tel þessar breytingar vera í réttlætisátt en staðreyndin er hins vegar sú að tekjulægstu hóparnir sitja eftir. Það er það sem kemur út úr skattkerfisbreytingunum. Þar með er ég ekki að fella dóm um kjarasamningana sem vissulega munu skila þeim hópi einhverju, þó líklega ekki nægilegu til að standa straum af verðbólgunni.

Við verðum að horfa til þessa hóps. Hæstv. fjármálaráðherra hefur nefnt þessa ríkisstjórn ríkisstjórn hins vinnandi fólks, gerði það í ræðu hér á dögunum. Horfum bara á þær fréttir sem voru í Ríkisútvarpinu um daginn, fréttir af opinberum starfsmönnum með laun í kringum 210 þúsund, vinnandi fólki sem hefur ekki efni á húsnæði öðru en því að leigja sér herbergi í iðnaðarhúsi úti í bæ. Hér er orðið erfitt um vik, ekki síst fyrir sívaxandi hóp leigjenda, fólk sem hefur ekki efni á að fjárfesta í húsnæði, fólk sem hefur ekki efni á að leigja sér almennilegt húsnæði og vinnur samt fullan vinnudag á allt of lágum launum. Þetta eru kjörin sem við bjóðum þessum lægst launaða hópi upp á. Ef það er á einhvern hátt möguleiki fyrir hæstv. ríkisstjórn að hafa þau áhrif að bæta kjör þessa hóps þá eru það breytingar í réttlætisátt. Við hljótum að spyrja okkur um réttlætið í því að við horfum upp á stóra hópa vinnandi fólks sem býr ekki við mannsæmandi aðstæður. Það er kannski nokkuð sem við ættum að velta fyrir okkur og hæstv. ríkisstjórn þegar við gerum slíkar breytingar, ekki aðeins út frá nytjahyggjurökum heldur eigum við líka að hugsa um réttlæti og ranglæti, hvort við teljum að breytingarnar séu nægilega réttlátar og hvort skattkerfið sem við byggjum hér upp sé nægilega réttlátt.

Við styðjum þetta mál með þeim fyrirvörum sem hér hafa verið viðraðir. Ég tek auðvitað undir það sem hér hefur verið sagt að vissulega hefur sú gagnrýni á skattkerfisbreytingarnar sem boðaðar voru hér í haust verið uppi allt haustið. Það er jákvætt að fallist hefur verið á rökin og hlustað á þá gagnrýni. Það skiptir nefnilega máli hvað er sagt í umræðunni. Það er ekki eins og hér sé allt sagt í einhverjum annarlegum tilgangi heldur er einmitt verið að reyna að hafa áhrif á mál til góðs. Mér finnst jákvætt að það hefur verið hlustað á gagnrýni frá stjórnarandstöðu og aðilum vinnumarkaðarins, mér finnst það gott.

Ég ítreka að ef við viljum hafa réttlátt kerfi þá skiptir mestu máli að líta til þeirra sem bágust kjörin hafa og ráða hreinlega ekki við að búa í samfélaginu hér og nú. Það finnst mér að við ættum að hugsa um í aðdraganda jólahátíðar.