143. löggjafarþing — 46. fundur,  21. des. 2013.

tekjuskattur.

265. mál
[15:57]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. félagsmálaráðherra fyrir athugasemd hennar og andsvar. Ég fagna þeirri vinnu sem stendur yfir um framtíðarstefnumótun í húsnæðismálum. Það er ekki vanþörf á. Við erum komin í ógöngur hvað varðar leigumarkað, við erum komin í ógöngur hvað varðar muninn á fasteignaverði um land allt og erfiðleika ungs fólks við að koma sér upp þaki yfir höfuðið. Þannig er staðan. Ég fagna því þessari vinnu. Að sjálfsögðu munum við taka þátt í henni af heilum hug.

Ég vil þó segja um þá áherslu sem hefur verið lögð af hálfu hæstv. ríkisstjórnar á skuldaleiðréttingar að ég tel að þær muni vissulega koma einhverjum hópi til góða en þær muni líka koma hópi til góða sem þarf ekki endilega á þeirri hjálp að halda sem ég tel að miklu stærri hópar þurfi á að halda úti í samfélaginu. Þá horfi ég sérstaklega til leigjendanna, sem hefur fjölgað, og fólksins sem kemst í raun og veru ekki inn í það séreignarkerfi sem hér hefur verið byggt upp á undanförnum árum og áratugum þrátt fyrir að vera með meðaltekjur en klýfur samt ekki það markmið að fá greiðslumat og koma sér fyrir í öruggu húsnæði en framboð á öruggu leiguhúsnæði er af skornum skammti eins og hæstv. ráðherra þekkir mætavel. Ég vil segja það hér, og við eigum eftir að ræða það ítarlega á vorþingi hvernig þær leiðréttingar sem hæstv. ríkisstjórn hefur boðað muni gagnast ólíkum hópum, að ég hef áhyggjur af því að þær muni ekki gagnast þeim sem þurfa mest á því að halda að við stöndum þétt við bakið á þeim.