143. löggjafarþing — 48. fundur,  21. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[17:50]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem fram kom hjá hv. formanni fjárlaganefndar, þessi fjárlög marka vissulega skörp skil yfir í hægri sinnaða hugmyndafræði þar sem fjárlögin einkennast af því að almenningi er afsalað talsverðum tekjum og í staðinn er gengið á innviðina. Ýmsir vaxtarsprotar eru klipptir ansi skarpt og nægir þar að nefna rannsóknir, nýsköpun, skapandi greinar og menntakerfið okkar. Það eru allt innviðir sem skipta almenning í landinu gríðarlegu máli og líka tækifæri ungs fólks á Íslandi til framtíðar.

Hins vegar er rétt að geta þess að ýmsir af hinum verstu agnúum frumvarpsins voru sniðnir af undir lok umræðunnar, ekki síst fyrir þrýsting samhentrar stjórnarandstöðu og almennings í landinu. Þar ber auðvitað sjúklingaskattana hæst sem voru sem betur fer felldir út á lokametrunum fyrir utan nokkrar aðrar umbætur. Almennt er það mat okkar þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að hér hafi orðið skörp hugmyndafræðileg skil og er ljóst að Framsóknarflokkurinn tekur þátt í þeirri hægri stefnu af fullum krafti með vinum sínum í Sjálfstæðisflokknum.