143. löggjafarþing — 48. fundur,  21. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[17:52]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Þegar frumvarp til fjárlaga var lagt fram í haust brá þjóðinni og þingheimi. Við sáum framan í skrýtna stefnu sem fólst í því að létta byrðum af þeim sem best væru í færum til að bera þær og að slökkva á þeim ljósum uppbyggingarverkefna, rannsókna, þróunar, framfara í mennta- og menningarmálum sem höfðu verið kveikt á undanförnum árum. Ríkisstjórnin hefur sýnt í vinnslu þessa máls í þinginu einbeittan áhuga á því að halda áfram þeirri kyrrstöðustefnu sem lagt var upp með hér í haust. Okkur hefur tekist með samstilltu átaki og einbeittri framgöngu undir lok þings að hafa mildandi áhrif á þetta frumvarp. Við fögnum því en ábyrgðin á þessum viðsnúningi er fyllilega í höndum stjórnarflokkanna.