143. löggjafarþing — 48. fundur,  21. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[17:54]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Við í Bjartri framtíð og fleiri gagnrýndum mjög þegar fjárlögin voru lögð fram, að þar var alls ekki nægilegt fjármagn til heilbrigðisþjónustu. Við fögnum því að það hefur verið leiðrétt þó að við hefðum viljað leiðrétta það með öðrum hætti en að fjármagna það beinlínis með því að draga til dæmis úr þróunaraðstoð. Við höfum jafnframt gagnrýnt það mjög að horfið er frá sóknaráætlunum um uppbyggingu í atvinnulífi, nýsköpun og þróun og varðandi skapandi greinar og grænan iðnað. Ég legg áherslu á það nú þegar kemur að afgreiðslu fjárlaga að það verði efnt sem fór á milli formanna stjórnmálaflokkanna að sett yrði á stofn þingnefnd með fulltrúum allra flokka sem mundi þróa tillögur um uppbyggingu nýsköpunar og þróunar og rannsókna skapandi greina og græns iðnaðar vegna þess að þetta er þrátt fyrir allt sameiginlegt viðfangsefni okkar allra og við hljótum að vilja það öll, að efla þær greinar.