143. löggjafarþing — 48. fundur,  21. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[17:55]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það frumvarp sem við greiðum nú atkvæði um markar mikil tímamót. Það markar tímamót fyrir þær sakir að hér afgreiðir þingið í fyrsta skipti frá bankahruninu hallalaus fjárlög. Reyndar hefur afgangurinn á milli umræðna að þessu sinni farið vaxandi. Við ætlum að afgreiða frumvarp með rúmlega 900 millj. kr. afgangi. Það er vissulega ekki stór fjárhæð í heildarsamhengi hlutanna þegar fjárlögin sjálf eru farin að losa 600 milljarða en það er engu að síður mikilvægt merki um að við ætlum að stöðva skuldasöfnunina.

Fjárlögin marka jafnframt tímamót fyrir þær sakir að hér eru stigin fyrstu skrefin í átt til þess að létta sköttum af einstaklingum, einnig af fyrirtækjum. Þau marka tímamót fyrir það að í fyrsta skipti eru fjármálafyrirtæki, líka þau sem eru í slitameðferð, látin greiða í ríkissjóð til að standa undir kostnaði í einhverju eðlilegu samhengi við það tjón sem ríkissjóður hefur orðið fyrir (Forseti hringir.) eftir bankahrunið.

Í heildina erum við (Forseti hringir.) með fjárlagafrumvarp sem markar að sjálfsögðu fyrstu skrefin í átt til nýrrar sóknar fyrir samfélagið allt.