143. löggjafarþing — 48. fundur,  21. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[17:56]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við getum að sjálfsögðu haldið ræður í þessum sal hvert yfir öðru og miklast af ágæti verka okkar en utan veggja þessa húss er þjóðin. Hún hefur verið að tala með athyglisverðum hætti, m.a. í greiningum og mælingum Gallups sem Íslandsbanki vinnur úr á heimasíðu sinni. Það er afar athyglisvert að þjóðin virðist vera með það á hreinu í þágu hverra verk þessarar ríkisstjórnar fyrst og fremst eru.

Þannig bregður nú við að svartsýni tekjulægsta hópsins í landinu tekur stökk upp á við eftir að ríkisstjórnin lokar fjárlögum sínum og hefur kynnt skuldaniðurfærsluaðgerðir sínar. Þeir tekjuhæstu verða aftur á móti mun bjartsýnni. Þetta eru afar athyglisverð skilaboð í sjálfu sér, ekki frá stjórnarandstöðunni heldur vísbendingar um viðhorf þjóðarinnar og mat hennar á því í þágu hverra verk ríkisstjórnarinnar eru.

Íslandsbanki segir að það megi túlka þetta sem svo að viðbrögð neytenda séu í takt við gagnrýni þeirra (Gripið fram í: Forseti.) sem sagt hafa að aðgerðir stjórnvalda (Forseti hringir.) gagnist þeim tekjuhærri betur en hinum sem hafa lágar tekjur. Vill ekki hæstv. fjármálaráðherra (Forseti hringir.) fara líka með þetta heim í jólaleyfi?