143. löggjafarþing — 48. fundur,  21. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[18:01]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Það er ástæða til að fagna því alveg sérstaklega að þetta margumrædda og umfangsmikla mál skuli nú vera að verða að veruleika. Hér er um að ræða 20 milljarða í fyrsta áfanga, en fólk mun engu að síður strax byrja að njóta niðurfærslu sem nemur öllum verðbótum umfram það sem talist gátu eðlilegar verðbólguvæntingar á árunum í kringum efnahagshrunið.

Þetta er sannarlega tímamótaaðgerð, þetta er réttlætisaðgerð fyrir hóp sem hefur legið óbættur hjá garði núna í fimm ár, en þetta er líka mjög mikilvæg efnahagsleg aðgerð, mikilvægur liður í að koma í veg fyrir að skuldafargið sem hefur legið á samfélaginu eins og mara komi í veg fyrir efnahagslegan vöxt og velferð í framtíðinni. Þetta er því aðgerð sem mun hafa jákvæð áhrif fyrir samfélagið allt og marka viðsnúning til betri tíma fyrir alla hópa samfélagsins.