143. löggjafarþing — 48. fundur,  21. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[18:04]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Hér er verið að ákveða að veita 20 milljarða úr ríkissjóði til ákveðinna aðgerða sem hafa ekki verið ræddar hér að neinu marki og með loforði um 60 milljarða til viðbótar. Staða ríkissjóðs er í járnum. Tekjurnar sem eiga að fjármagna þessar aðgerðir eru ekki fastar í hendi. Okkur finnst þetta því vera glannaskapur og getum ekki stutt þetta.

Ávinningurinn af aðgerðunum miðað við þá umræðu sem þó hefur farið fram og kynningu sem við höfum séð er óljós, sérstaklega miðað við forsendurnar í íslensku efnahagslífi. Það eru líkur á að aðgerðirnar komi ekki þeim til góða sem þurfa helst hjálp.

Það er algjörlega óvíst að tekjurnar sem eiga að fjármagna þessar aðgerðir skili sér. Í forsendum frumvarps þar sem meðal annars er ákveðið að leggja skatt á fjármálastofnanir segir að tekjurnar dugi einungis í tvö ár. Þessar aðgerðir eiga að vara í fjögur. (Forseti hringir.) Hér er því verið að spila teningaspil með ríkissjóð að okkar mati. Sumir vilja laga forsendubresti. (Forseti hringir.) Við viljum laga forsendurnar í íslensku efnahagslífi fyrir heimilin og fyrirtækin.

Við segjum nei við þessu.