143. löggjafarþing — 48. fundur,  21. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[18:11]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við erum að afgreiða fjárlög fyrir árið 2014 með rúmlega 900 millj. kr. afgangi. Það er afskaplega viðkvæmur afgangur. Ég minni á það enn einu sinni að við erum að borga 75 milljarða á ári í vexti. Það eru 200 milljónir á dag og það er vegna þess að ríkissjóður skuldar allt of mikið. Hann verður að sýna afgang til að fara að borga niður þessar miklu skuldir og minnka vaxtagreiðslurnar. Árleg greiðsla í vexti er um það bil einn fullbúinn spítali, bara til viðmiðunar.

Nú reynir á hvernig til tekst með framkvæmd fjárlaganna. Það mun koma í ljós í ríkisreikningi árið 2014 sem mun væntanlega birtast í maí eða júní 2015. Það er sá ríkisreikningur sem segir okkur til um hvort það hafi verið afgangur á ríkissjóði eða ekki, hvort ríkisfjárlögin hvetji til verðbólgu og hvort börnin okkar komi til með að borga skuldirnar okkar. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)