143. löggjafarþing — 49. fundur,  14. jan. 2014.

framhaldsfundir Alþingis.

[13:36]
Horfa

Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Ég þakka hæstv. forsætisráðherra góðar kveðjur. Ég býð hv. alþingismenn velkomna til vetrarþings að loknu jólahléi og óska þeim og starfsmönnum Alþingis gleðilegs árs og þakka fyrir gott samstarf á liðnu ári.

Fram undan er annasamur tími. Alþingi mun takast á við stór mál og þýðingarmikil viðfangsefni á vetrar- og vorþingi. Því vil ég að hætti Katós hins gamla segja við hæstv. ríkisstjórn: Auk þess legg ég til að þingmál ríkisstjórnarinnar komi sem fyrst til umfjöllunar þingsins á vetrarþinginu. [Hlátur í þingsal.] (Gripið fram í: Heyr, heyr!)

Í lok maí verða haldnar sveitarstjórnarkosningar og hefur skipulag Alþingis tekið mið af því. Starfsáætlun gerir ráð fyrir að þingfundum ljúki 16. maí til þess að skapa eðlilegt og sjálfsagt rými fyrir undirbúning kosninganna og þær umræður sem fram fara í aðdraganda þeirra. Þingfundadagar nú á 143. löggjafarþingi verða þó álíka margir og jafnan hafa verið og sömu sögu er að segja af nefndafundum. Þingstörfin verða á hinn bóginn í samþjappaðra formi og þing kemur heldur fyrr saman núna í janúar en oftast hefur tíðkast.

Þingstörf á síðasta hausti tókust vel. Okkur tókst að ljúka þeim mjög nærri þeirri áætlun sem við höfðum sett okkur þrátt fyrir sérstakar aðstæður vegna kjarasamninga sem voru gerðir á almenna vinnumarkaðnum og Alþingi hafði atbeina að eins og oft gerist þegar aðstæður kalla á slíkt.

Ég vil ítreka þakkir mínar til þingmanna allra fyrir framlag þeirra til þingstarfanna á haustþinginu og vona að okkur megi auðnast að standa vel að verki á síðari hluta þinghaldsins.