143. löggjafarþing — 49. fundur,  14. jan. 2014.

breytingar á skattkerfinu.

[13:51]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Hæstv. forsætisráðherra fer í samanburð á ríkisstjórnum, sem er þvert á það sem formaður hins stjórnarflokksins, hæstv. fjármálaráðherra, sem er ekki hér í dag, hélt fram fyrir jól þegar hann stóð í þessari pontu og sagði að það yrði að viðurkennast að síðasta ríkisstjórn hefði staðið vörð um kjör hinna lægstlaunuðu og hefði til að mynda gert það með því að koma á þrepaskiptu skattkerfi þar sem lægsta þrepið væri lágt. Í raun notaði hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra það sem rök í málinu að ekki væri hægt að lækka það þrep meir því að staðinn hefði verið vörður um kjör hinna lægstlaunuðu. Það er því merkilegt enn og aftur að heyra ólíkan málflutning sem kemur úr herbúðum stjórnarliðsins, nýttan til að rökstyðja þverólíka stefnu.

Gott og vel. Ég vil þá heyra það frá hæstv. forsætisráðherra hvernig hann ætli nákvæmlega að standa að því að innleiða lög sem hvetji til aukinna kjarabóta annað en það að hafa áhrif á skattkerfið, og hvers vegna það komi þá ekki til greina að lækka lægsta þrepið (Forseti hringir.) sem væntanlega hlýtur líka að hafa í för með sér tekjubætur fyrir þennan hóp, sem er því miður (Forseti hringir.) allt of stór hér á landi.