143. löggjafarþing — 49. fundur,  14. jan. 2014.

breytingar á skattkerfinu.

[13:52]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Þetta var undarlegur útúrsnúningur þar sem tilgangurinn virtist helga meðalið.

Ég hélt því einmitt fram að ef hv. þingmaður væri þeirrar skoðunar að síðasta ríkisstjórn hefði staðið vörð um þá lægstlaunuðu, m.a. hvað varðaði skattkerfið — og hv. þingmaður kinkar nú kolli og staðfestir að síðasta ríkisstjórn hafi gert það — þá hafi ekki orðið nein breyting á skattlagningu þessa hóps hjá nýrri ríkisstjórn. Hv. þingmaður getur ekki haldið því fram að sú skattprósenta sem nú er í gildi sé á einhvern hátt aðför að ákveðnum hópi, vegna þess að þetta er sama prósenta og síðasta ríkisstjórn lagði á sömu hópa.

Hvað varðar hins vegar þær aðgerðir sem hægt er að ráðast í til þess að bæta kjör þeirra lægstlaunuðu með öðrum leiðum en í gegnum skattkerfið þá liggja þær í því sem ég útskýrði áðan, í aukinni verðmætasköpun. En hún verður ekki til nema til staðar sé hvati til þess að fjárfesta, til þess að ráða fólk í vinnu, til þess að borga fólki hærri laun, því að ef jaðaráhrifin (Forseti hringir.) eru slík að ekkert hafist upp úr því að borga fólki hærri laun (Forseti hringir.) þá hækka launin ekki.