143. löggjafarþing — 49. fundur,  14. jan. 2014.

framhald viðræðna við ESB.

[13:54]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Gleðilegt ár. Mig langar að eiga orðastað við hæstv. utanríkisráðherra um aðildarviðræður við ESB. Það er óhætt að segja að möguleg aðild Íslendinga að Evrópusambandinu sé mikið deilumál, stórt álitamál, mikilvægt álitamál. Við erum mjög margir sem höldum því fram að við mundum njóta góðs af því efnahagslega, viðskiptalega að ganga til aðildar við Evrópusambandið, að við eigum lýðræðislega og menningarlega samleið með Evrópuríkjunum og þar fram eftir götunum. Mjög margir halda því fram og færa fyrir því góð rök að við mundum ná góðum samningi byggðum á sérstöðu Íslendinga að mörgu leyti, t.d. um sjávarútveg þjóðar. Svo eru aðrir sem hafa efasemdir um þetta. Málið er því dæmigert stórt deilumál og deilumál sem hefur verið óútkljáð í íslensku samfélagi í áratugi.

Ég er þeirrar skoðunar og margir þingmenn eru þeirrar skoðunar, margir Íslendingar eru þeirrar skoðunar að eina leiðin til að útkljá málið sé einfaldlega að gera samning við Evrópusambandið, reyna að gera eins góðan samning við Evrópusambandið og við mögulega getum og fara síðan gömlu góðu lýðræðislegu leiðina og leyfa þjóðinni að ákveða hvort hún vilji á grundvelli þess samnings gerast aðili að Evrópusambandinu eða ekki. Ég held því fram að það sé engin önnur leið til að taka upplýsta ákvörðun um þetta mál. Ég er vongóður um að hægt sé að ná góðum samningi. Ég sé ekki hvernig er hægt að velta því fyrir sér núna hvort við eigum að gerast aðilar að Evrópusambandinu eða ekki, við höfum ekki grundvallarbreytuna til staðar sem er samningurinn. Ég tel að þetta sé besta leiðin til að útkljá málið og nú langar mig að spyrja hæstv. utanríkisráðherra: Hver er þín hugmynd? Hvernig vilt þú útkljá málið? Hvert er planið?