143. löggjafarþing — 49. fundur,  14. jan. 2014.

endurskoðun jafnréttislaga.

[14:05]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Fundurinn er engu að síður haldinn til að fjalla um þetta ákvæði þannig að maður hlýtur að spyrja: Hver er hvatinn að því? Og þá er ekkert óeðlilegt að maður vísi í fyrri orð hæstv. ráðherra þar sem hún sagði líklegt að þær konur sem þarna tækju sæti væru ekki jafn hæfar og aðrir sem þar ættu sæti eftir að lögin voru samþykkt og þær væru kallaðar súkkulaðikleinur.

Það var spurningin, hver væri hvatinn að þessari breytingu, og ég fékk ekki annað svar hér en að það væri af því að hæstv. ráðherra hefði verið á móti löggjöfinni á sínum tíma.

Það er verið að kalla til fundar út af þessari grein, út af þessu ákvæði, til að fjalla beinlínis um það, og ég spyr um hvatann að því.

Ég vil líka nefna að menn beita einnig tækjum innan stjórnmálaflokka til að jafna hlut karla og kvenna. Ég veit ekki betur en að formaður Sjálfstæðisflokksins hafi lýst því yfir áður en ríkisstjórnin var mynduð að hann ætlaði að tryggja að það yrði jafnt hlutfall karla og kvenna í ráðherrahópi Sjálfstæðisflokksins. (Gripið fram í.) Mér dettur ekki í hug að halda því fram að þess vegna sé hæstv. ráðherra einhver súkkulaðikleina. Þetta þýðir einfaldlega að menn eru meðvitaðir um og átta sig á því að potturinn er stærri (Forseti hringir.) en þeir fáu karlar sem hingað til hafa meira og minna skipað allar stjórnir og líka stöður innan stjórnmálaflokka.