143. löggjafarþing — 49. fundur,  14. jan. 2014.

endurskoðun jafnréttislaga.

[14:07]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Fundurinn er haldinn til að heyra ólík sjónarmið. Ég trúi ekki öðru en að hv. þingmaður sé mér sammála um að til þess að við getum verið sem vissust hér um að sú löggjöf sem við beitum okkur fyrir, sem við berum ábyrgð á, eins og ég geri í þessu tilfelli, sé eins vel úr garði gerð og mögulegt er. Lögin tóku gildi í september. Ef ég hefði viljað koma minni skoðun í framkvæmd hefði mér verið í lófa lagið að koma fram með þingmál til að passa upp á að þau tækju ekki gildi. Mér datt hins vegar ekki í hug að gera það vegna þess að ég ræddi við fólk í atvinnulífinu, bæði karla og konur, og ég heyrði sjónarmið þess. Fólk vildi gefa lögunum tækifæri, sjá hvort þetta gengi. Ég vil heyra þau sjónarmið og ég vil ræða við þetta fólk og ég vil ræða um hvort lögin séu ágæt eins og þau eru, hvort á þeim megi gera breytingar, t.d. með tilliti til stærðarmarka, og ég óska þess að við getum í sameiningu (Forseti hringir.) farið yfir það. Það liggur ekkert á. Ég er búin að segja að ekki stendur til að breyta lögunum á þessu þingi, við skulum skoða málin í rólegheitunum og taka svo ákvörðun sem við byggjum á upplýsingum.