143. löggjafarþing — 49. fundur,  14. jan. 2014.

verðhækkanir og aðgerðir ríkisstjórnarinnar.

[14:08]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég beini máli mínu til hæstv. forsætisráðherra í fjarveru hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra. Ég tel óumflýjanlegt að inna oddvita ríkisstjórnarinnar eftir því hvað það er nákvæmlega sem ríkisstjórnin hefur lofað aðilum vinnumarkaðarins í sambandi við verðlagsmál. Það hlýtur að vera hægt að ræða það út frá einhverjum staðreyndum en ekki bara í formi ásakana um útúrsnúninga á alla enda og kanta. Reyndar hafði ég óskað eftir því að ráðherrar kæmu til fundar við efnahags- og viðskiptanefnd en á því verður einhver töf sökum anna ráðherranna. Ég tel engu að síður óumflýjanlegt að Alþingi sé upplýst um stöðu mála og að þetta liggi skýrt fyrir.

Nú í desember sendi Seðlabankinn ríkisstjórn greinargerð í samræmi við samstarfsyfirlýsinguna sökum þess að verðbólga fór út fyrir efri vikmörk Seðlabankans, var 4,2% á ársgrundvelli. Þar af leiðandi eru menn að semja í þeirri viðkvæmu stöðu um 2,8% launahækkanir að ársverðbólga er núna 4,2%. Spurning er hvernig beri að túlka fyrirheit ríkisstjórnarinnar um það að verðhækkanir fari ekki út fyrir viðmiðunarmörk Seðlabankans. Þýðir það að hvergi verði neinar gjaldskrárhækkanir á vegum ríkisins umfram 2,5%? Mun þá ganga til baka 20% hækkun á komugjald á heilsugæslustöðvar, hækkun skráningargjalda í opinbera háskóla langt umfram þetta eða leggur ríkisstjórnin þá túlkun í þessi fyrirheit sín að þetta sé útkoman í heild sinni? Telur hún sér annað til tekna þannig að eftir sem áður verði á ýmsum sviðum gjaldskrárhækkanir langt umfram þessi mörk? Já eða nei.

Verða allar hækkanir undir 2,5% eða er þetta hin aðferðin til þess í raun og veru að afsaka það að ríkisstjórnin geti þá gert ekki neitt? Er kannski (Forseti hringir.) bara loft í fyrirheitum ríkisstjórnarinnar um að engar hækkanir fari umfram viðmiðunarmörk Seðlabankans?