143. löggjafarþing — 49. fundur,  14. jan. 2014.

verðhækkanir og aðgerðir ríkisstjórnarinnar.

[14:11]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Að sjálfsögðu getur hv. þingmaður treyst því að öll fyrirheit ríkisstjórnarinnar til aðila vinnumarkaðarins standi. Það hefur aldrei annað komið til greina og þau fyrirheit hafa þegar skilað því að menn náðu niðurstöðu, menn undirrituðu hér kjarasamninga eftir aðkomu ríkisstjórnarinnar að málunum þar sem fallist var á að gera ákveðnar breytingar í samræmi við tillögur aðila vinnumarkaðarins, eða hluta þeirra, m.a. hvað varðar tekjuskattsbreytingar og breytingar á gjöldum.

Hvað varðar endanlega niðurstöðu um hvaða gjöld lækka frá því sem áður var gert ráð fyrir hefur það verið skilið eftir opið en menn hafa sett sér þess í stað markmið um upphæðir. Ég tel æskilegt að ná því markmiði með því að lækka þau gjöld sem hafa víðtækust áhrif og hafa sérstaklega áhrif fyrir tekjulægri hópa.