143. löggjafarþing — 49. fundur,  14. jan. 2014.

staða verndarflokks rammaáætlunar.

[14:33]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Umræðan um verndun Þjórsárvera hefur verið mjög villandi. Hún hefur ekki endilega snúist um verndun Þjórsárvera heldur baráttuna um hvernig við eigum að feta hina fínu línu milli verndar og nýtingar.

Breyttar útfærslur Landsvirkjunar á þessu svæði eru allt önnur nálgun en við höfum séð fram að þessu og það er ekki hægt að segja annað en að búið sé að draga mjög skýran ramma utan um Þjórsárver. Umræðan um samspil nýtingar og verndar hefur vissulega skilað árangri og þegar vitnað er hér í nóbelsskáldið fyrir 45 árum og sagt að ekkert hafi miðað áfram er það auðvitað alrangt. Rammaáætlun á að byggjast á faglegu mati og nú er sagt að hæstv. umhverfisráðherra hafi kastað stríðshanskanum, að hann fari gegn markmiðum rammaáætlunar og þeirrar stóru sáttar, að búið sé að fórna hinni stóru sátt.

Við skulum rifja upp málsmeðferð síðustu ríkisstjórnar á niðurstöðu verkefnastjórnar og málsmeðferð rammaáætlunar. Ég ætla að fá, með leyfi hæstv. forseta, að vitna í bók Össurar Skarphéðinssonar þar sem hann segir frá því 16. mars að forsætisráðherra og iðnaðarráðherra, Oddný G. Harðardóttir, hafi lokið samningum við VG um rammaáætlun sem felist í frestun á Hágöngum, Skrokköldu og neðri hluta Þjórsár þar sem rök Orra Vigfússonar um laxastofna eigi að skýra frestunina. Stöllurnar vilji taka málið í gegnum ríkisstjórnina og viti að ramminn fari aldrei svo breyttur í gegnum þingflokkinn nema hann, Össur Skarphéðinsson, beiti sér fyrir því.

Jóhanna segir að VG geti ekki lifað við aðra niðurstöðu, það mundi leiða til ríkisstjórnarslita. Síðan kemur langur kafli um það hvernig tryggja verður fylgni Vinstri grænna við aðlögun að ESB og lýsing á fundi Jóhönnu, Össurar og Steingríms sem er sagður tefla eins og maður sem hefur drottninguna í forgjöf vegna samþykkis forsætisráðherra og iðnaðarráðherra. Össur segist oft hafa teflt úr sterkari stöðu. Eftir langt samtal segir Steingrímur J. Sigfússon ríkisstjórninni að druslast í gegnum þetta og Össur rífur í lúkuna á honum, eins og hann lýsir því sjálfur, en segir við forsætisráðherra að þetta geti varla talist handsal.

Það var þarna, við þessa málsmeðferð sem sáttin var rofin, það var nákvæmlega þarna sem hún var rofin. Það er ekki verið að rjúfa neina sátt með því sem er verið að gera núna.