143. löggjafarþing — 49. fundur,  14. jan. 2014.

staða verndarflokks rammaáætlunar.

[14:43]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ágætur útvarpsmaður hafði samband við mig um daginn og spurði: Getur þú útskýrt fyrir mér hvað hugtakið rammaáætlun þýðir? Ég sagði að í rammaáætlun eins og hún er jafnan kölluð væru landsvæði flokkuð í orkunýtingar-, verndar- og biðflokk á grundvelli laga um verndar- og orkunýtingaráætlun. Hann sagði: Nei, getur þú útskýrt þetta þannig að fimm ára krakki skilji? Ég gerði mitt besta. Ég veit ekki hvort það hafi gengið neitt sérstaklega vel en ég reyndi að minnsta kosti.

Í Morgunblaðinu í gær var sagt að þing hæfist á sérstakri umræðu um Norðlingaölduveitu. Það er ekki alls kostar rétt vegna þess að þessi umræða fjallar um stöðu verndarflokks rammaáætlunar og í verndarflokki rammaáætlunar eru einfaldlega 20 svæði. Ég held að það liggi ljóst fyrir að á þessum hálftíma er útilokað að fjalla málefnalega og af einhverju viti um alla þá kosti sem eru í verndarflokki.

Ég verð að viðurkenna að mér finnst umræðan oft og tíðum hafa verið á lágu plani. Mér finnst það á lágu plani að fullyrða að núverandi stjórnarflokkar vilji virkja allt sem hægt er að virkja. Það er ekki rétt. Það er einfaldlega rangt.

Á morgun ætlum við í umhverfis- og samgöngunefnd að fá alla sérfræðinga til okkar, alla þá sem hafa eitthvað um Norðlingaölduveitu að segja. Við ætlum að ræða þetta á þremur klukkutímum og fara yfirvegað yfir málið. Við ætlum að fara á svæðið, vonandi í þessari viku, og sjá það með eigin augum. Það er von mín, virðulegi forseti, að okkur á Alþingi takist með einum eða öðrum hætti að koma umræðunni (Forseti hringir.) um umhverfismál á það plan sem okkur sæmir (Forseti hringir.) þannig að við sem viljum virkilega (Forseti hringir.) vernda náttúruna njótum þess (Forseti hringir.) að vera ekki stimpluð fyrir að vera í einhverjum (Forseti hringir.) sérstökum stjórnmálaflokki.